Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:58:47 (4227)

1999-03-02 13:58:47# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Á síðasta ári, þegar ný húsnæðislög voru samþykkt og þar með felld niður sú heimild sem áður hafði verið í lögum til að veita 100% lán, var aðalskrautfjöðrin sú að fjölga ætti leiguíbúðum. Það átti að fjölga leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga sem væru byggð fyrir opinber lán. Þetta úrræði átti að duga betur fyrir þá sem verst eru staddir.

Nú erum við að byrja að súpa seyðið af þessari lagasetningu. Staðreyndin er sú að ég hef aldrei, síðan ég varð þingmaður þó það sé að vísu ekki langur tími, tekið á móti jafnmörgum símtölum frá fólki í neyð og í síðasta mánuði. Öryrkjar, einstæðir foreldrar og venjulegar, fátækar fjölskyldur eru hreinlega á götunni vegna þess að úrræðin eru engin.

[14:00]

Það er alveg vonlaust fyrir þetta fólk að fá húsnæði á almennum leigumarkaði þó það hlaupi heilu dagana eftir auglýsingadálkum dagblaðanna. Það er allt saman á biðlistum, sumir hjá Öryrkjabandalaginu, þar er mér sagt að sé a.m.k. þriggja ára bið, sumir hjá Félagsmálastofnun og þar er sagt að engar íbúðir séu. Ég talaði sjálf við ráðgjafa þessa fólks og þeir bara fórnuðu höndum þó það væru barnshafandi öryrkjar sem voru gersamlega á götunni sem þarna var um að ræða og sögðu: Við höfum engin úrræði.

En þegar ég spurði: Hvað vantar mikið af leiguíbúðum í Reykjavík? Þá gat enginn gefið nákvæm svör. Því vil ég stinga upp á því við hæstv. félmrh. að hann setji sér það göfuga takmark að rannsaka leigumarkaðinn í Reykjavík, hve raunveruleg þörf fyrir leiguíbúðir í Reykjavík er mikil og hvaða átak þarf að gera til að fullnægja henni. Er kannski kominn tími til að hefja byggingu neyðarskýla?