Lífeyrissjóður bænda

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 14:26:06 (4231)

1999-03-02 14:26:06# 123. lþ. 75.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv. 12/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[14:26]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um Lífeyrissjóð bænda. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson. Brtt. er í fjórum liðum.

Herra forseti. Lífeyrissjóður bænda lofar hverjum sjóðfélaga ákveðnum réttindum sem eru háð fjölskyldustöðu. Þessi réttindi má reikna með allgóðri nákvæmni til fjár. Verðmæti allra þessara réttinda sjóðfélaga eiga að standast á við eignir sjóðsins í verðbréfum og fasteignum samkvæmt nýsamþykktum lögum um lífeyrissjóði. Þessar eignir sjóðsins standa því á bak við réttindi sjóðfélaganna sem hljóta því að eiga þessar eignir. 1. liður brtt. tekur mið af þessu en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Við 1. gr. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Sjóðurinn er eign sjóðfélaga og lífeyrisþega. Innstæða eða réttindi skv. 7. gr. eru eign rétthafa.``

Herra forseti. Ég get ekki séð hver annar eigi eignir Lífeyrissjóðs bænda en bændur sjálfir og sjóðfélagar. Bændur borga bæði 4% iðgjald launþega og 6% iðgjald atvinnurekenda þannig að ég get ómögulega séð hverjir eigi Lífeyrissjóð bænda aðrir en bændur sjálfir. Því er hér lagt til að þetta verði gert formlegt og sagt: ,,Sjóðurinn er eign sjóðfélaga.``

Herra forseti. Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að fimm menn skipi stjórn sjóðsins og þeir verði skipaðir af Hæstarétti, fjmrh., landbrh. og svo tveir af Bændasamtökum Íslands.

Þeir fyrstu þrír sem tilnefndir eru af Hæstarétti, fjmrh. og landbrh. eru ekki í nokkrum einustu tengslum við sjóðfélaga sjóðsins en eiga þó að hafa afgerandi áhrif á ávöxtun þess fjár sem stendur að baki þeim réttindum sem þetta fólk á að njóta í ellinni. Ég get ekki séð hverjir hafi meiri hagsmuni af því hvernig þetta fé er ávaxtað en sjóðfélagarnir sjálfir. Þetta er þeirra fjöregg. Þetta er þeirra eign sem á að standa undir lífeyri þeirra í ellinni þannig að mér finnst fráleitt að einhverjir aðilar tilnefndir af Hæstarétti og tveimur ráðherrum komi að þessari stjórn.

Þá eru tveir stjórnarmenn tilnefndir af Bændasamtökum Íslands og sumir kynnu að halda að það sé sama sem bændur, þ.e. að bændur kjósi þá menn. En ég sé mikinn mun á Bændasamtökum Íslands og bændum sjálfum, og alveg sérstaklega sjóðfélögum þessa sjóðs. Ég geri almennt mikinn mun á stéttarfélögum og þeim sem eru skyldaðir til að eiga aðild að þeim.

Herra forseti. Ég treysti bændum fullkomlega til þess að annast sín fjármál. Þetta eru fullorðnir og fullvaxta menn sem hafa fjárráð og ég treysti þeim til að fara með sín fjárráð og kjósa sína stjórn. (Gripið fram í: Sumir orðnir nokkuð gamlir.) Því er lagt til að stjórn sjóðsins verði kosin af sjóðfélögum á félagsfundi.

2. liður brtt. hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

,,Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins. Heimild til að sitja félagsfund hafa sjóðfélagar eða umboðsmenn þeirra.``

Þeir kjósi síðan stjórn og annist allan rekstur sjóðsins. Ég get ómögulega séð annað en að sjóðfélagarnir eigi að fara með stjórn þessa sjóðs sem og stjórn allra annarra lífeyrissjóða. Ég treysti fólki fullkomlega til þess að annast þetta lýðræði sjálft. Ég hef nefnilega trú á lýðræðinu sem margir hverjir hafa ekki. (ÖJ: Jafnvel þótt aðeins tveir menn sæki fundinn?) Hv. þm. er í stjórn lífeyrissjóðs. Hann er ekki kosinn af sjóðfélögum í þann sjóð og fer þó með mikið fjármagn og mikið kapítal. Hann er nefnilega kapítalisti.

Herra forseti. Í 3. lið tillagnanna er getið um skyldu til þess að upplýsa hvern sjóðfélaga um eign hans í sjóðnum sem er þá jafnverðmæt réttindum hans. Þarna er gert ráð fyrir því að hver maður fái að vita hvað hann eigi mikið í sínum lífeyrissjóði, en það mun auka áhuga hans á því að vel sé með þetta fé farið og það mun auka áhuga hans á því að mæta á félagsfundi. Nú er það nefnilega þannig, hv. þm. sem áðan greip hérna fram í, að þeir sjóðfélagar sem mæta á félagsfund hafa engin áhrif. Þeir hafa ekkert að segja þar. Þeir kjósa ekki í stjórn. Þeir hafa engin áhrif svo að það er ekki skrýtið þó að fáir mæti á ársfundi. Það er ekki skrýtið. Þeir hafa ekkert að segja þar. Ef þeir fengju hins vegar upplýsingar um að þeir ættu kannski 2 millj. í þessum sjóði í réttindum og þessar 2 millj. eiga að standa undir lífeyri þeirra í ellinni, þá munu þeir örugglega sýna miklu meiri áhuga á því hvernig þetta fé er ávaxtað og hver fer með það þannig að þeir munu fjölmenna á félagsfundi.

Herra forseti. Í 4. lið tillagnanna er gert ráð fyrir að núverandi sjóðstjórn sitji þar til ný stjórn hefur verið kjörin á fyrsta félagsfundi og það er eðlileg afleiðing af þessum brtt.