Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 14:46:24 (4237)

1999-03-02 14:46:24# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., Frsm. 1. minni hluta KH
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[14:46]

Frsm. 1. minni hluta (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta allshn. um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001, en þetta nál. er á þskj. 917 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Markmið tillögunnar er að treysta búsetu á landsbyggðinni með það fyrir augum að fólksfjölgun verði þar ekki undir landsmeðaltali og verði 10% allt til ársins 2010. Með tilliti til þróunar síðustu ára eru engin líkindi til þess að þetta markmið náist nema ráðist verði í róttækar aðgerðir, vörn snúið í sókn eftir markvissri áætlun og varið til þess verulegum fjármunum.`` --- Hér má skjóta því inn í, herra forseti, að ekki er um neina sleggjudóma stjórnarandstöðunnar að ræða heldur hefur þessi fullyrðing m.a. stuðning af umsögn Þjóðhagsstofnunar en þar stendur m.a., með leyfi forseta:

,,Í tillögunni er það markmið sett að fólksfjölgun á landsbyggðinni verði ekki undir landsmeðaltali á næsta rúmum áratug. Að mati Þjóðhagsstofnunar er slíkt markmið virðingarvert en ekki raunhæft. Til þess að svo mætti verða þarf ekki einasta að nást jafnvægi í flutningum milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar heldur þarf að verða nettóflutningur út á land. Það stafar af því að flutningar undanfarinna áratuga hafa skekkt aldursskiptingu íbúa landsbyggðarinnar þannig að náttúruleg fjölgun er minni en á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög ólíklegt að ekki verði áfram einhver flutningur af landsbyggð á höfuðborgarsvæðið, jafnvel þótt úr honum drægi, á sama hátt, og af sömu ástæðum og fleiri Íslendingar flytja frá landinu en til þess.`` Þetta var tilvitnun í umsögn Þjóðhagsstofnunar til stuðnings því sem segir í nál. 1. minni hluta. Og held ég þá áfram lestri þess nál., með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir fögur orð og fyrirheit í tillögunni er þar ekki að finna neitt sem tryggir slíka sókn heldur er þar eingöngu óljóst orðalag á borð við: ,,Unnið verði markvisst að...``, ,,Tryggt verði að...``, ,,Stefnt verði að því að...``, ,,Sköpuð verði skilyrði til þess að...``, ,,Sérstaklega verði hugað að...`` o.s.frv. Engar upplýsingar er að finna um hvernig og hvenær eigi að ráðast í verkin þrátt fyrir að tímabilið sem tillagan er miðuð við sé þegar nær hálfnað. Tillögunni fylgir engin framkvæmdaáætlun, engin áætlun um fjárframlög og ekkert kostnaðarmat. Fullyrðingar í greinargerð um ný vinnubrögð og skýr markmið verka því sem öfugmæli.

Allt ber málið þess vott að stjórnarflokkarnir hafi vaknað upp við vondan draum og áttað sig á því að stefna þeirra í efnahags- og atvinnumálum annars vegar og stefnuleysi í byggðamálum hins vegar á stóran þátt í þeirri geigvænlegu byggðaröskun sem orðið hefur. Þeir vilja nú með þessum ómarkvissu fyrirheitum freista þess að slá ryki í augu kjósenda sem dæma munu verk þeirra í vor. Í því sambandi er rétt að minna á byggðaáætlun 1994--97 sem samþykkt var á Alþingi í maí 1994 en þar voru m.a. gefin fyrirheit um aukna opinbera þjónustu og starfsemi opinberra stofnana á landsbyggðinni á því tímabili. Árangur þeirrar stefnu hefur nýlega verið kynntur í skýrslu frá Byggðastofnun og þar kemur fram að þetta markmið hefur síður en svo náðst. Stöðugildum hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum hefur fjölgað um 225 í Reykjavík á tímabilinu og um 112 í Reykjaneskjördæmi en fækkað um 32 í öðrum kjördæmum. Af heildarfjölda stöðugilda hjá stofnunum og fyrirtækjum á vegum ríkisins eru 62,1% í Reykjavík, þar sem hlutfall íbúa er 39,2%. Í öðrum kjördæmum er hlutfall stöðugilda 37,9% og hlutfall íbúa 60,8% en allar þessar tölur eru miðaðar við árið 1997. Sérstaka athygli vekur reyndar rýr hlutur Reykjaneskjördæmis í þessu efni þar sem t.d. á Norðurlandi vestra eru um tvöfalt fleiri stöðugildi á hverja 1.000 íbúa en í Reykjaneskjördæmi og í Reykjavík eru stöðugildin um fjórfalt fleiri en í Reykjaneskjördæmi. Í skýrslunni er bent á að nýjar stofnanir og fyrirtæki hafi verið sett á stofn á tímabilinu án opinberrar umræðu um staðsetningu þeirra. Þannig virðast fyrirheit í byggðaáætlun 1994--97 ekki hafa verið ráðamönnum ofarlega í huga lengi. Þessi niðurstaða er staðfest í greinargerð með tillögunni þar sem segir: ,,Ályktun Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun frá 1994, sem kveður meðal annars á um fjölgun starfa í þjónustustörfum á landsbyggðinni, hefur ekki skilað árangri nema síður sé.`` Rétt er enn fremur að minna á að í einkageiranum er þróunin svipuð, fjölgun starfa á þessu kjörtímabili hefur þar einnig orðið að mestum hluta á höfuðborgarsvæðinu.

Stórfelld röskun byggðar í landinu er mikið áhyggjuefni. Allar götur síðan 1979 hefur landsbyggðin misst fólk til höfuðborgarsvæðisins og síðastliðin tíu ár hafa brottfluttir af landsbyggðinni umfram aðflutta verið 12.541. Þessi þróun hefur á margan hátt haft neikvæð félagsleg og menningarleg áhrif á allt þjóðfélagið en nú fer einnig vaxandi skilningur á þjóðhagslegum kostnaði sem er samfara þessari röskun. Talið er að það kosti sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. 3--5 millj. kr. á hvern íbúa sem þangað flyst að byggja upp þá aðstöðu og þjónustu sem þarf og er þá rekstrarkostnaður ekki meðtalinn. Á móti verður fjárfesting og uppbygging á landsbyggðinni vannýtt. Skólar, heilbrigðisstofnanir og aðrar þjónustustofnanir standa hálftómar og tekjur sveitarfélaganna minnka, auk félagslegra erfiðleika sem skapast. Er þá ónefndur mikill kostnaður fjölskyldna og einstaklinga sem oftar en ekki yfirgefa eignir sínar verðlitlar eða verðlausar og þurfa að kosta miklu til að útvega sér húsnæði og koma sér fyrir á nýjum stað.

Miklar upplýsingar liggja fyrir um orsakir og undirrót þessarar óheillavænlegu byggðaröskunar. Þær eru m.a. í fylgiskjölum með tillögunni svo og í umsögnum sem allsherjarnefnd bárust þegar hún fjallaði um málið. Orsakirnar felast ekki síst í óhagstæðri atvinnuþróun og einhæfni atvinnulífs víða um land. Þar ber að hafa í huga að búseta ræðst ekki lengur aðeins af atvinnu heimilisföður heldur þarf að taka tillit til þess að konur eru einnig virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Þær mennta sig ekki síður en karlar og eiga bæði þær sjálfar og þjóðfélagið rétt til þess að sú menntun og starfskraftar nýtist. Orsakir byggðaröskunar felast einnig í margháttuðum aðstöðumun eftir byggðarlögum hvað varðar samgöngur, verslun og vöruverð, orkukostnað, aðstöðu til menntunar, heilsugæslu og margvíslegrar félagslegrar þjónustu. Þá er ekki hægt að líta fram hjá því að fjölbreytni á sviði menningar og afþreyingar vegur þungt og skiptir nútímafólk æ meira máli. Fjölbreytni, jöfn lífsskilyrði og öryggi eru því lykilorðin við markmiðssetningu í byggðamálum. Síðast en ekki síst snýst málið um að efla tiltrú fólks á búsetu til framtíðar í byggðum utan höfuðborgarsvæðisins. Um vilja þess hefur verið spurt í skoðanakönnun sem staðfestir að fjölmargir kysu búsetu á landsbyggðinni ef öryggi og allar aðstæður væru þar í góðu lagi. Því liggur beint við að álykta að róttækar aðgerðir til úrbóta gætu snúið við þeirri öfugþróun sem verið hefur í flutningum fólks af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis.

Fyrsti minni hluti telur að tillagan hefði þurft mun ítarlegri meðferð í allsherjarnefnd en raun varð á. Margar umsagnir bárust með hugmyndum og ábendingum sem meiri hlutinn hefur í engu tekið tillit til. Það er nokkuð sammerkt með umsögnunum að lögð er áhersla á nauðsyn þess að efndir fylgi orðum og fjármagn fyrirheitum. Vantrú umsagnaraðila á efndirnar er augljós. Ekkert hefur verið gert til að eyða óvissu í þessu efni.

Ljóst er að taka þarf miklu fastar á málum en gert er ráð fyrir í tillögunni. Orðin ein duga ekki. Setja þarf fram áætlun með tímasetningum og kostnaðarmati um aðgerðir í samgöngumálum og fjarskiptum, í menntamálum, heilbrigðisþjónustu og annarri félagslegri þjónustu, jöfnun námskostnaðar, jöfnun orkukostnaðar o.fl. Styðja þarf markvisst við þróun fjölbreyttra atvinnukosta með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað og á forsendum sjálfbærrar þróunar. Fyrst og fremst þarf þó að sýna viljann til góðra hluta í verki. Það stoðar lítið að móta stefnu, gera áætlun og meta kostnað ef ákvörðun skortir um afl þeirra hluta sem gera skal. Fjármagn verður að fylgja.

Fyrsti minni hluti tekur undir margt af því sem fram kemur í tillögunni en gagnrýnir lausatök og skort á markvissri áætlanagerð. 1. minni hluti telur hér í besta falli um að ræða atrennu stjórnarflokkanna til að gera sér grein fyrir ástandinu og tilraun til að setja sér markmið. 1. minni hluti getur ekki fallist á að hér sé um trúverðuga úrlausn að ræða og mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.``

[15:00]

Í umsögn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. er t.d. réttilega bent á að árangur af starfi síðustu áratuga hafi ekki skilað sér í að draga úr fólksflutningum af landsbyggð. Mikið af fjármagni til landsbyggðarinnar hefur farið í beina fjárfestingu sem ekki gefur af sér bein störf, þ.e. til frambúðar. Uppbygging á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar falist í fjölgun starfa og uppbyggingu þjónustu sem skilar sér í störfum til langframa. Þetta er mjög athyglisvert og rétt að hafa í huga.

Umsögn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. er um margt athyglisverð. Í raun hefði verið ástæða til að láta hana fylgja sem fylgiskjal og reyndar ýmsar aðrar umsagnir sem komu til allshn. Ég vil leyfa mér að grípa niður í nokkrar af þeim umsögnum.

Í áliti frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða hf. segir m.a. um atvinnumálin, með leyfi forseta:

,,Aukin fjölbreytni í atvinnulífi er ein meginforsenda fyrir eflingu atvinnlífs á landsbyggðinni, spár um þróun atvinnutækifæra í frumframleiðslugreinum eru allar á þann veg að veruleg fækkun verði í þessum greinum. Á Vestfjörðum standa þessar greinar fyrir um 40--50% starfa í kjördæminu. Því má það vera ljóst að nauðsyn er á nýsköpun á svæðinu en það starf er það stutt á veg komið að ekki er séð að tími vinnist til að taka við fækkun starfa í þessum atvinnugreinum. Það er einnig mat Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. að allar kollsteypur í atvinnumálum fámennra svæða séu óæskilegar. Slíkt þarf að framkvæma á löngum tíma til að minnka áhættu og kostnað. Stefna félagsins er sú að byggja á eða byggja við þá starfsemi sem fyrir er og að auðlindir svæðanna séu nýttar. Það er því að mati félagsins gagnrýnisvert að hve litlu mæli tillögur eru um í byggðaáætlun, þar sem komið er inn á stöðu sjávarútvegs og landbúnaðar og tengingu landsvæða við nýtingu auðlinda þeirra.``

Í umsögninni er nokkuð fjallað um starfsemi þróunarstofa en síðan segir nokkru aftar, með leyfi forseta:

,,Félagið tekur undir tillögu um að styrkja lánastarfsemi Byggðastofnunar, a.m.k. á tímabili þessarar byggðaáætlunar eða þar til séð verður hver verður þróun á lánamarkaði. En enn sem komið er er reynsla af sameiningu lánasjóða atvinnulífsins ekki til hagsbóta fyrir minni fyrirtæki og einstaklinga a.m.k. á landsbyggðinni.`` (EgJ: Eru einhverjar tillögur um það þarna?)

Það er vikið að þessu atriði, eins og hv. frammíkallandi þekkir. M.a. var rætt um að sameining lánasjóða atvinnulífisins yrði til hagsbóta fyrir landsbyggðina og tekin frá sérstök upphæð til þess að veita til atvinnustarfsemi úti um landið. Held ég þá áfram að vitna í umsögn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. Í framhaldi af þessu segir:

,,Smæð verkefna þeirra virðist ekki vekja áhuga þessara sjóða og því eiga þeir nú erfiðara að útvega langtímalánsfé en áður var. Efling viðskiptabanka og sparisjóða sem eru með víðtækt útibúanet getur hugsanlega bætt þessa stöðu en á meðan það liggur ekki nánar fyrir er nauðsynlegt að halda við starfsemi lánasviðs Byggðastofnunar.``

Raunar væri ástæða til að lesa þessa umsögn meira og minna en það ætla ég ekki að gera. Þar sem fjallað er um þróunina í atvinnulífinu og nauðsyn þess að styðja við nýsköpun og áframhaldandi þróun í frumframleiðslugreinunum, þá er lítillega vikið að stjórn fiskveiða. Eins og við þekkjum hefur hún haft áhrif á þeim stöðum þar sem atvinnulífið byggist á fiskveiðum og vinnslu. Þar hefur ýmislegt gerst á undanförnum árum. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða nefnir sérstaklega að fundin verði leið til að auðvelda aðgengi smábáta og þilfarsbáta, allt að 50 eða 100 brúttótonn, inn í þorskaflahámarkskerfið, eins og hér segir:

,,Smábátar eða þilfarsskip með hefðbundnu aflamarki geti lagt það inn og fengið til baka í þorskaflahámarki með ákveðnu álagi eða ákveðnu álagi við löndun til landvinnslu. Útgerð verði bundin við hefðbundna landútgerð og staðbundin veiðarfæri. Aðgerð þessi gæti verið tímabundin fyrir hvern aðila t.d. átta ár eða sem nær yfir tvö tímabil Byggðaáætlunar.``

Þá er ástæða til, herra forseti, að vitna til umsagnar Náttúruverndar ríkisins frá því í desember á síðasta ári:

,,Stofnunin telur rétt að benda á að áætlað er að um 230 þúsund ferðamenn muni koma til landsins á árinu 1998 og spár gera ráð fyrir tvöföldun á næstu tuttugu árum þ.e. að ferðamenn verði allt að 500 þúsund á ári og tekjur af ferðaþjónustunni verði allt að 65 milljarðar króna á ári. Náttúruvernd ríkisins telur að grípa verði til fjölþættra aðgerða til að mæta þessari aukningu. Tryggja þarf dreifingu ferðamanna um landið í tíma og rúmi til að koma í veg fyrir óbætanlegan skaða á náttúruperlum landsins.``

Í framhaldi af því er fjallað um nýsköpun í atvinnulífi og nauðsyn þess að hefja vinnu við landnýtingaráætlun þar sem tekið verði á öllum helstu þáttum og samræmingar gætt fyrir landið í heild. Og Náttúruvernd ríkisins leggur áherslu á að aðstoða þurfi ferðaþjónustuaðila við nýsköpun og markaðssetningu ,,... því fjölmörg svæði landsins eru lítið sem ekkert nýtt þrátt fyrir mikla möguleika bæði sumar og vetur.

Stofnunin tekur undir að þörf sé á að efla háskólamenntun og rannsóknir sem tengjast ferðaþjónustu. Endurmenntun og fjarkennsla í greinum eins og náttúrufræðum, menningarsögu, viðskiptum, ferðamálafræðum og tungumálum getur opnað nýja möguleika við atvinnuuppbyggingu og stutt við veikburða starfsemi í dreifðum byggðum.

Náttúruvernd ríkisins sér um menntun landvarða og stendur fyrir landvörslu í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Áhugi er á að koma þeirri menntun inn í almenna skólakerfið og inn í fjarkennslu. Störf landvarða eru mikilvægur liður í fræðslu, leiðbeiningum og öryggismálum fyrir ferðafólk.``

Þetta mætti allt taka til athugunar en síðar í umsögninni er kafli sem nefnist Bætt umgengni við landið. Ég held að ástæða sé til að lesa þann kafla, með leyfi forseta. Þar stendur:

,,Gróður og jarðvegseyðing er stærsta umhverfisvandamál okkar og full þörf er á breyttum áherslum. Óheft beit bæði sauðfjár og hrossa á viðkvæmu landi er hjarðbúskapur sem heyra ætti fortíðinni til. Styðja þarf bændur landsins við að koma á beitarstjórnun til að ýta undir sjálfgræðslu. Beitarstjórnun byggð á þekkingu á burðarþoli lands stuðlar að sjálfbærum búskap.

Náttúruvernd ríkisins fagnar hugmyndum í tillögunni um að sveitarfélög verði aðstoðuð við gerð framkvæmdaáætlana í umhverfismálum. Stofnunin starfar með náttúruverndarnefndum sveitarfélaganna veitir þeim upplýsingar og aðstoðar eftir föngum. Nefndirnar eru augu og eyru stofnunarinnar á sínu svæði og veita henni ýmsar upplýsingar og ábendingar. Á sameiginlegum fundi Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda sem haldinn var á Selfossi í nóvember 1998 komu fram óskir um aukinn faglegan stuðning en vegna fjárskorts hefur stofnunin ekki getað orðið við óskum nefndanna. Sú hugmynd kom fram á fundinum að gera þyrfti Náttúruvernd ríkisins kleift að ráða í fullt starf þá eftirlitsfulltrúa sem starfa sem verktakar fyrir stofnunina víða um land. Þeim mætti skapa aðstöðu á nýjum Náttúrustofum kjördæmanna.

Friðlýst svæði landsins sem eru í umsjón Náttúruverndar ríkisins eru mörg hver einnig vinsælustu ferðamannastaðir landsins. Stofnunin tekur undir að átaks sé þörf við umhverfisbætur. Náttúruvernd ríkisins hefur búið við fjársvelti undanfarin ár og því einungis getað varið 2--3 millj. króna árlega til úrbóta á friðlýstum svæðum utan þjóðgarðanna, fjárþörfin er um 157 millj. króna. Náttúruvernd ríkisins leggur til að gert verði átak í samstarfi við sveitarfélög um uppbyggingu svæðanna þannig að stofnunin geti í auknu mæli falið þeim umsjón og rekstur friðlýstra svæða eins og lög um náttúruvernd heimila.

Hraða þarf gerð stafrænna korta fyrir landið allt og byggja upp landfræðileg upplýsingakerfi sem taka til allra þátta. Nauðsynlegt er að stuðla að aukinni þekkingu á náttúru landsins, sú þekking er grunnur upplýsingakerfisins.``

Þarna er að sjálfsögðu minnt á að í náttúruvernd er gríðarlega margt ógert og kallar á mikið starf, uppbyggingu, lagfæringar, gæslu og eftirlit. Þarna er um fjölda starfa að ræða sem bent er á í þessari umsögn, starfa í ferðaþjónustu, við uppbyggingu, lagfæringu og eftirlit. Ég sé ástæðu til þess að draga þetta fram við þessa umræðu.

Svipað eða því skylt er ýmislegt sem fram kemur í umsögn Landgræðslu ríkisins. Hún var reyndar með beinar brtt. við tillöguna, án þess að tillit væri tekið til þeirra. Í þeirri umsögn var lögð til sú breyting að inn í tillöguna kæmi að auknar yrðu aðgerðir og fjármagn til að fjölga hlutastörfum við landgræðslu, landbótastarf og aðra umhverfisvernd. Einnig var tillaga um stöðvun hraðfara gróðureyðingar, lagt til að bætt verði við markmiðum um að stuðla að landbótum á rýrum svæðum og einnig að bætt verði við grein, sem yrði þá nr. 22 í tillögunni, þar sem stæði:

,,Að samræma búskaparhætti að sjálfbærri landnýtingu til að efla samkeppnismöguleika íslensks landbúnaðar.``

Enn fremur yrði þess getið að þar sem sauðfjárframleiðsla væri í sátt við landið yrði búgreinin sérstaklega efld.

[15:15]

Ég gæti út af fyrir sig lokið þessari yfirferð með tilvitnun í umsögn frá Eyþingi sem er samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Þar kemur fram nokkuð sem var gegnumgangandi í öllum þessum umsögnum. Þar segir, eftir að stjórnin hefur fagnað tillögunni, með leyfi forseta:

,,Stjórnin vill hins vegar að gefnu tilefni minna rækilega á að umræður og úttektir á vanda landsbyggðarinnar skortir ekki. Það sem á skortir er að úttektum á vanda landsbyggðarinnar, og tillögum um aðgerðir til að draga úr þeim vanda, hafi verið fylgt eftir með beinum aðgerðum.

Brýnt er að því sé fylgt eftir að mörkuð stefna Alþingis í byggðamálum og þau fyrirheit um aðgerðir sem m.a. eru gefin í tengslum við væntanlegar breytingar á kjördæmaskipaninni komist í framkvæmd`` o.s.frv.

Þetta er nokkuð dæmigert fyrir það sem fram kemur í þessum umsögnum. Ég vil svo að lokum vitna í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sem lýsir sig sammála meginmarkmiðum þeim sem tilgreind eru í þáltill. Sambandið telur að þar sé að finna mörg stefnumarkandi atriði sem lúti að því að styrkja byggðina í landinu með tilteknum aðgerðum. Nokkru síðar segir, með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af framlagningu tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 og frumvarps til stjórnskipunarlaga um breytingu á kjördæmaskipuninni leggur stjórn sambandsins til að skipuð verði sameiginleg framkvæmdanefnd ríkis og sveitarfélaga um byggðamál. Auk þess að fjalla almennt um byggðamál hafi nefndin það sérstaka hlutverk að fylgja því eftir að mörkuð stefna Alþingis í byggðamálum og þau fyrirheit um aðgerðir í þeim málum sem gefin eru í tillögunni og í tengslum við væntanlegar breytingar á kjördæmaskipaninni komist í framkvæmd.``

Að mínu mati tillaga hefði verið vert að taka tillit til þessarar tillögu því þar með hefði fengist ákveðinn farvegur og vettvangur til að leitast við að tryggja framgang þeirra markmiða sem sett eru fram í þessari tillögu.

Herra forseti. Það er ekkert tryggt í því efni, eins og tillagan hefur verið sett fram og afgreidd. Þess vegna treystir 1. minni hluti allshn. sér ekki til að styðja tillöguna þótt við sem undir það álit skrifum séum sammála markmiðunum. Við tökum undir margt sem í tillögunni stendur og munum að sjálfsögðu ekki greiða atkvæði gegn henni en við treystum okkur ekki til að styðja hana með vísan til þess sem fram kemur í nál. okkar. Við munum því sitja hjá við afgreiðslu málsins.