Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 15:52:44 (4239)

1999-03-02 15:52:44# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur þegar farið fram allmikil umræða um byggðatillögu forsrh. Raunar hafa komið fram þrjú nál. um afgreiðslu hennar. Það þarf ekki að vekja mikla athygli þó fram komi fleiri en eitt og fleiri en tvö nál. Hins vegar er athyglisvert ekki skyldu koma fram neinar brtt. Það er þó ekki vandaverk ef menn hafa vald á textanum sem slíkum að gera brtt. við tillögu sem þessa og auðvelt að koma hugmyndum þar á framfæri. Hins vegar er skýrt tekið fram, mér finnst mikil ástæða til þess að undirstrika það og þakka, að efni þessarar tillögu sé á margan hátt jákvætt og vænta megi að það skili einhverjum árangri.

Mér finnst vert að vekja athygli á því að stór hluti umræðunnar ber merki þess er tillagan var lögð fram. Þá fór fram umræða um efni tillögunnar, málefnaleg og góð og skýrði vel hvernig þessi texti varð til. Þar af leiðandi er ekki sérstök ástæða til að fara yfir þann þátt mála nú. Þó vil ég vekja athygli á örfáum atriðum út frá því sem hér hefur m.a. komið fram.

Í þessu sambandi hefur verið minnst á tillögu sem samþykkt var og afgreidd á þinginu árið 1994. Á það hefur verið bent og vissulega ekki að ástæðulausu að sú tillaga, sem var hin fyrsta sinnar gerðar, hafi ekki skilað miklum árangri. Það var fyrsta stefnumótandi byggðatillagan sem var lögð fram á Alþingi en eins og menn vita var ákveðið, með breytingum á lögum um Byggðastofnun árið 1991, að hefja þessa tillögugerð og fjalla um hana á Alþingi. Ég held að þessu hafi best verið lýst af hæstv. forsrh. í umræðum fyrr á þinginu. Hann sagði að þessi tillaga hefði verið frumsmíð og barn síns tíma. Menn gerðu sér þetta ljóst þegar farið var að vinna að þessari tillögugerð. Þeir sem bera saman efni og áherslur þessara tveggja tillagna ættu að sjá að þær eru mjög ólíkar. Ég vil þó undirstrika sérstaklega að með samningu hinnar tillögunnar var mikið lagt af mörkum, einkum í starfi embættismanna Byggðastofnunar í mjög nánum tengslum við stjórn hennar.

Málin þróuðust hins vegar þannig að þessi tillaga var samin og unnin af stjórn stofnunarinnar eftir að hún hafði leitað til fjölmargra aðila í þjóðfélaginu eftir góðum ráðum við þessa tillögugerð. Þar var fyrirferðarmest efni frá Stefáni Ólafssyni prófessor, Háskólanum á Akureyri og Haraldi Líndal Haraldssyni svo nokkur dæmi séu nefnd. Efni þessarar tillögu var sótt víða að að ósk stjórnar Byggðastofnunar. Sumu hafði stjórn stofnunarinnar leitað eftir, t.d. því sem birtist í riti Stefáns Ólafssonar og hann hafði unnið að um nokkurt skeið. Þar var m.a. leitt í ljós hver væru stærstu vandamálin í að viðhalda byggðum vítt um landið. Mörgum komu þau býsna mikið á óvart. Þar komu fram þrjár meginástæður sem Stefán Ólafsson leiddi skýr rök að að væru grundvöllur byggðaflóttans á Íslandi. Þar var um að ræða ónóga fjölbreytni í atvinnulífinu, aðstæður í menntun og lakari lífskjör. Þessir þrír meginþættir voru dregnir fram í riti Stefáns Ólafssonar, Búseta á Íslandi, eru grundvöllur þess hvernig þáltill. sem hér er til umræðu er byggð upp og sett fram.

[16:00]

Afar margt eftirtektarvert kom fram í þessu riti Stefáns, m.a. það sem hefur legið mönnum létt á tungu í þingsölum og miklu víðar, að það skorti á að þjónusta á landsbyggðinni væri fullboðleg eða í samræmi við það sem gerðist í þéttbýlinu. Það gagnstæða kom reyndar í ljós, að þjónustuþættirnir og þjónustan í heild sinni eru í betra horfi á landsbyggðinni en í Reykjavík.

Það er auðvitað grundvallaratriði til þess að menn nái árangri í málefnum sem þessum að tekið sé á þar sem vandinn er mestur og mestrar úrlausnar í þessum efnum er þörf. Þegar með öðrum orðum er búið að brjóta þetta niður þá eru þrír meginþættir ráðandi um þessi efni.

Í þessari umræðu hefur verið kvartað yfir því að þáltill. sé óljós. Það held ég að sé afar mikill misskilningur. Ég held að tillagan sé einkar skýr. Það er svo annað mál að í henni felast ekki allar þær lausnir sem til þarf til að þær áherslur sem hér koma fram verði að veruleika.

Í lögum um Byggðastofnun er svo fyrir mælt að það eigi að gera tillögur af þessum toga á fjögurra ára fresti og það eigi að endurskoða þær á tveggja ára fresti. Þar með er fengin skýring á því hvers vegna tillögugerð af þessum toga birtist jafnþétt og hér er gert ráð fyrir. Það hlýtur að verða nærtækt verkefni fyrir næstu stjórn Byggðastofnunar að fara að huga að því hvernig þessar áherslur hafast við og koma þá með nýjar þegar þessi tillaga verður endurskoðuð að tveim árum liðnum. Þetta held ég að sé mikið grundvallaratriði og sú leið sem ég kann besta til þess að fylgjast með því hvernig þessi mál þróast.

Á þetta ber að leggja mikla áherslu, herra forseti, við upphaf umræðunnar og alveg nauðsynlegt er að þessar staðreyndir liggi fyrir þegar menn tala um óljósa tillögugerð.

Það er reyndar svo, eins og hér hefur komið fram, að þessi tillaga kom fram á síðasta þingi, í lok síðasta þings. Hún hefur þar af leiðandi verið í æði mikilli umræðu í þjóðfélaginu. Hún hafði þá verið í undirbúningi hjá stjórn Byggðastofnunar síðan á úthallandi sumri árið 1997. Þar af leiðandi hefur tillagan og efni hennar haft býsna mikil áhrif í þjóðfélaginu. Það er t.d. búið að semja ein fjárlög og afgreiða á Alþingi eftir að hún kom fyrst fram. Áherslur í fjárlögum fyrir þetta ár, sem voru afgreidd eins og menn vita í desember sl., taka m.a. mið af þessari þáltill. Tillaga er því farin að hafa sín áhrif í þjóðfélaginu. Ég minni líka á það, sem komið hefur fram í þessari umræðu, að sérstök nefnd er að störfum, byggðanefnd forsrh. sem einn úr stjórn Byggðastofnunar fer fyrir. Hann er í forustu fyrir þeirri nefnd. Ég hygg að þegar þær tillögur og það nál. komi fram muni koma í ljós að einmitt þessi tillaga, byggðatillaga forsrh., verði góður vegvísir í þeim efnum. Áhrif þessarar tillögu munu því ekki láta standa á sér.

Það er líka eftirtektarvert, ef farið er yfir texta tillögunnar og hann borinn saman við ýmis þau viðfangsefni sem uppi eru í þjóðfélaginu um þessar mundir, að augljóst er að gott samræmi er á milli þeirra aðgerða og byggðatillögunnar. Ég minni á innganginn að þessum áherslum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta,:

,,Unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þróunarstofur verði efldar og þannig treystur grundvöllur til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. Hlutverk þeirra verði meðal annars að auka samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni og aðstoða fyrirtæki við öflun verkefna og styrkja innan lands sem utan.``

Nú eru starfandi níu atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni. Starfsmönnum þeirra hefur fjölgað, ríflega þrefaldast á þremur árum, og starfsemin hefur margeflst. Ég sé fyrir mér, af því ég hef átt þess kost að fylgjast með þessum málum, að atvinnuþróunarfélögin eru í þessum efnum að ná miklum árangri, afar miklum árangri. Breytingin frá því sem áður var er sú að þessi starfsemi er flutt út úr embættissýslunni yfir til fólksins á landsbyggðinni sem þar dvelur og starfar, hefur þar ábyrgð og skyldur, og það er þetta fólk sem er að sýsla með þessi mál í staðinn fyrir embættismannakerfið áður. Ég er sannfærður um að það er mikið heillaspor að þessi breyting skuli hafa verið gerð. Hér er með öðrum orðum komin í framkvæmd fyrsta áherslan í byggðatillögu forsrh. Það er alveg nauðsynlegt að menn líti á þessar staðreyndir.

Síðar er komið að peningahliðinni. Talað er um lánastarfsemi Byggðastofnunar sem reyndar er ekki ný af nálinni. En í framhaldi af því er komið að stofnun eignarhaldsfélaga. Það vill svo til að fjárveiting til eignarhaldsfélaganna upp á sömu tölu og í þessari þáltill. er líka á fjárlögum. Það vill líka svo til að í næsta mánuði verða stofnuð tvö fyrstu eignarhaldsfélögin á landsbyggðinni, kannski fleiri, tvö sem mér er kunnugt um. Þannig er fenginn grundvöllur fyrir fjárhagslegt sjálfstæði þeirrar starfsemi hringinn í kringum landið sem tekst sérstaklega á við ný viðfangsefni og ný tækifæri. 300 milljónir á ári á áætlunartímabilinu, 1,2 milljarðar kr., eru ekki svo litlir peningar. Það er jafnframt skilyrt, þótt ekki hafi verið settar um það reglur enn þá, að heiman að verði að koma fjármagn á móti, sex hlutar á móti hverjum fjórum. Þannig öðlast þessi viðfangsefni möguleika á því að hafa sjálfstæða peningalega forsjá og möguleika. Þetta var reyndar orðið að staðreynd, eins og ég minnti raunar á áðan, áður en þáltill. verður samþykkt.

Ég hef fylgst með þeirri vinnu sem starfsmenn Byggðastofnunar hafa lagt af mörkum í þessu efni og ég er afskaplega ánægður með hvernig það verk stendur og hvaða áherslur þeir leggja við að veita þessa peninga, m.a. til þess að kalla eftir meira fjármagni til þeirra sem kannski eiga einhverja peninga. Ég er sannfærður um að hér verður stigið mikið heillaskref í því að efla nýsköpun og önnur slík tækifæri á landsbyggðinni. Ég held og reyndar fullyrði að þetta rími sérstaklega vel við störf atvinnuþróunarfélaganna og fulltrúar í atvinnumálum hafa sýnt mér viðfangsefni þar sem einmitt vantar tækifæri af þessum toga.

Það hefur verið gagnrýnt að Nýsköpunarsjóðurinn hafi ekki burði til þess að ganga inn í þessi verkefni. Hann gerir arðsemiskröfur sem auðvitað samrýmast því ekki að áhætta sé tekin. En mér hefur sýnst síðustu dagana að einmitt hafi verið fundnar leiðir og meira að segja góðar leiðir til þess að tengja þetta fjármagn saman, Nýsköpunarsjóðinn og nýsköpunarféð, sem þáltill. kveður á um og hefur skilað fyrstu greiðslu inn í fjárlög og sem verður tekið til við að koma í form, eins og ég sagði áðan, fyrir sumarið. Ég kalla þetta markviss vinnubrögð. Ég kalla það markviss vinnubrögð að innan fárra mánaða skuli það orðið að veruleika að eignarhaldsfélög með nýsköpunarfyrirheit fari að rísa. Ég vona að þau verði komin hringinn í kringum landið fyrir lok þessa árs. Þetta er stórkostlegt mál og engin byggðatillaga, hvorki fyrr né síðar, hefur gefið nein fyrirheit sem nálgast það sem hér hefur verið gert.

[16:15]

Kvartað hefur verið yfir því að tillögur til úrbóta á hinum veikari byggðasvæðum sé ekki að finna í þessari tillögugerð. Í 4. tölul. er hins vegar sagt frá áherslum um þau efni þar sem sérstaklega er fjallað um veikari byggðirnar og það vill reyndar svo til að hafin er vinna við að greina þær byggðir alveg sérstaklega og vanda þeirra. Það vill reyndar líka svo til að hafnar eru aðgerðir í tveimur byggðarlögum til að mæta þeim mikla vanda sem þau byggðarlög búa við. Þróunarstofan á Sauðárkróki hefur þegar unnið afskaplega mikilvægt verk við að skýra hvernig þessi vandamál liggja og hvers eðlis þau eru. Ég held að óhætt sé að fullyrða að innan stutts tíma verði hægt að leggja þau spil öll á borðið og það er, þótt ekki sé sérstaklega rúmt í búi hjá Byggðastofnun, alveg ljóst að þessi málefni verða til sérstakrar athugunar. Stjórn stofnunarinnar hefur gert samþykkt fyrir starfsemi sína sem sérstaklega lýtur að því að takast á við vanda þessara byggðarlaga og það hefur einmitt verið farið rækilega yfir sams konar vinnubrögð í löndum sem búa við sama hagkerfi og við. Einnig er búið að gera sérstakar ráðstafanir á grundvelli þessarar tillögu til að greina og ná til þess vanda sem fámennari byggðirnar til sjós og lands eiga sérstaklega við að etja.

Þannig eru grundvallaráherslurnar sem hér eru lagðar til í þessum efnum.

Næsti meginþátturinn sem ég ætla að fjalla um er menntun, þekking og menning. Þar væri hægt að tala langt mál, líka um hvað gert hefur verið frá því meira að segja þessi byggðartillaga birtist. Ég hygg að ýmsum hafi þótt nokkuð djarflega teflt þegar þær áherslur voru settar fram að háskólakennsla mundi hefjast, reyndar á síðasta ári, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þetta er þó eigi að síður staðreynd og út um allt land fara núna nýir og ferskir straumar í þessum málum. Þar á reyndar byggðabrú Byggðastofnunar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, gríðarlega stóran hlut að máli og einmitt um þessar mundir er farið að líta á það hvernig hægt er að hátta skipulagi í tengslum við þá brú til að auka og efla menntunina sem víðast um land. Þetta er mikið grundvallarmál og það er eftirtektarvert hve það eru margir og hvað þeir koma víða að sem taka nú um þessar mundir mikilvægar ákvarðanir einmitt inn í framtíðina í tengslum við menntun úti um landsbyggðina og hvað hér er um gríðarlega miklar áherslur að ræða. Meira að segja þær áherslur sem settar eru fram í byggðatillögunni, jafnmikilvægar og þær eru og framsýnar, eru farnar að koma í framkvæmd líka svo um munar. Á þetta hlýt ég að leggja áherslu.

Þriðja áhersluefnið er jöfnun lífskjara og bætt samkeppnisstaða. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um þann þátt málanna hér. Það geri ég m.a. vegna þess að ég er sannfærður um að í þeim efnum eigum við á Alþingi og reyndar um allt land að fá skýrari framsetningu en hér er unnt að leggja fram með þeim tillögum sem nefnd forsrh. undir stjórn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á eftir að skila af sér. Hins vegar ber að leggja áherslu á að hér eru skýrar áherslur, bæði í sambandi við menntun og líka í sambandi við húshitun, og fleiri kjaramál sem afar mikilvægt er að fylgt verði eftir og reyndar má ekki gleyma því að í þessum efnum komu nýjar áherslur í þeim fjárlögum sem við vinnum nú eftir.

Þegar litið er yfir þetta svið þá held ég að ljóst sé að þessi tillaga hefur þegar skilað mikilvægum árangri. Opinber umræða hófst um hana fyrir einu ári og tillagan fékk í heild sinni afar góðar undirtektir í þjóðfélaginu, bæði í borg og líka í hinum dreifðari byggðum og þess vegna hafa margar þær áherslur og meira að segja þær mikilvægustu náð því marki sem ég hef nú lýst.

Ég vil svo í lokin leggja áherslu á það sem kemur fram í 16. tölul. ályktunarinnar, að Byggðastofnun haldi vöku sinni með að fylgjast sem nákvæmlegast með því hvernig hjartað slær úti um hinar dreifðu byggðir og það er orðið miklu auðveldara nú en áður var vegna þess að sú starfsemi hefur verið færð út í byggðir landsins þar sem sérstakt samkomulag hefur verið gert milli stofnunarinnar og atvinnuþróunarfélaganna um að vinna sem skilvirkast einmitt að því að upplýsa hvernig byggðin helst við á hverjum stað, og hvað sé þar til ráða. Þetta held ég sé mikil grundvallaráhersla og eigi eftir að skila mikilvægum árangri við framvindu og þróun byggðamála á Íslandi.