Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 17:25:23 (4245)

1999-03-02 17:25:23# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[17:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem ekki í ræðustól til að andmæla ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, heldur til bregðast við ýmsu því sem hún sagði og vekja athygli á þessari góðu ræðu þingmannsins og þeim ábendingum sem fram komu í henni. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn að vísað skuli hafa verið til þessarar byggðastefnu í þingstörfunum í vetur varðandi einstök mál sem hafa verið hér til umræðu og þegar hún í lok þings kemur til umfjöllunar og hefur loks verið afgreidd úr nefnd, er ekkert um þau málefni fjallað. Ein vika lifir eftir af þessu þingi ef starfsáætlun helst og þá erum við að ræða byggðastefnu sem vissulega átti að gilda fyrir árið 1998. Í henni er e.t.v. nokkur framtíðarsýn og þegar byggðastefna, sem getur verið fallegt plagg og full af göfugum orðum, er framkvæmd þá eru menn að búa til ímynd af því samfélagi sem menn vilja sjá í fyllingu tímans.

Nú er fjögurra ára tímabili ríkisstjórnar að ljúka. Hér á þingi á eftir að vinna í eina viku eins og ég hef áður sagt. Þá afgreiðum við byggðastefnu. Það er ekki bara það heldur er það að gerast, og var sagt frá því í útvarpinu í morgun, að drög að skýrslu stjórnskipaðrar nefndar forsrh. um byggðamál liggi nú fyrir og mér skilst að þá skýrslu eigi að afgreiða formlega í næstu viku, u.þ.b. sem þing er farið heim.

Herra forseti. Er nokkur glóra í því að þannig sé unnið? Erum við ekki núna að fjalla um mál sem þessi ríkisstjórn hefði átt að leggja fyrir þingið á fyrsta ári síns kjörtímabils og að um slík mál ætti ný ríkisstjórn, ef mál skipast þannig, að fjalla í upphafi næsta þings?