Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 17:30:05 (4247)

1999-03-02 17:30:05# 123. lþ. 75.14 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[17:30]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kjarni málsins. Í þessari umræðu kemur t.d. ekki fram hverjar séu tillögur stjórnskipaðrar nefndar forsrh. Eftir eina viku getum við gert ráð fyrir því að hæstv. forsrh. kynni tillögur, e.t.v. góðar og áhugaverðar tillögur sem gætu skipt máli fyrir fólk á landsbyggðinni. Þær koma fram eftir að þing hefur lokið störfum. Þær koma fram í aðdraganda kosninga og væntanlega verður farið fram með þær tillögur sem fyrirheit sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að uppfylla fái hún til þess vald eftir kosningar. Á fólk á landsbyggðinni að taka mark á þeim tillögum? Hvaða handarbaksvinnubrögð eru það að við skulum í allan dag ræða byggðastefnu sem verður e.t.v. aldrei hrint í framkvæmd og ekki vita hverjar tillögur stjórnskipaðrar nefndar sem er að ljúka tillögum sínum til forsrh. eru? Við munum hlusta á þær að viku liðinni, þá væntanlega komin heim til okkar og af þingi og við munum velta fyrir okkur hvað verður gert með þetta og hvað fólk meinar með því að kynna tillögur í lok kjörtímabils sem hefur ekki snert við því að taka á vandanum sem blasað hefur við á hverju einasta ári, en látið reka á reiðanum og flotið að feigðarósi.