Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 13:55:23 (4266)

1999-03-03 13:55:23# 123. lþ. 76.11 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Í veikindaforföllum hæstv. félmrh. mæli ég fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.

Með breytingu á lögum um málefni fatlaðra, sem hér er lögð til, er stefnt að því að auðvelda yfirtöku sveitarfélaga á þjónustu við fatlaða á grundvelli 13. gr. laga. Á undanförnum árum hafa nokkur sveitarfélög sýnt því áhuga að yfirtaka þjónustu við fatlaða á grundvelli þeirrar greinar. Þar sem skort hefur lagaákvæði um réttarstöðu starfsmanna svæðisskrifstofu málefna fatlaðra við yfirtöku sveitarfélaga á þjónustunni hefur reynst örðugt að ganga til slíkra samninga.

Í 1. gr. frv. er leitast við að bæta úr brestum gagnvart samningum af því tagi, svo sem þeim tveimur tímabundnu þjónustusamningum sem þegar hefur verið lagður grundvöllur að. Í frv. segir að í slíkum samningum eða samningi sé félmrh. heimilt að framselja viðkomandi sveitarfélagi, byggðarsamlagi eða héraðsnefnd allar þær valdheimildir sem framkvæmdastjórar svæðisstofa fara með samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo fremi að starfsmönnum sé tilkynnt hver fari með það vald.

Drög að þessu frv. voru kynnt stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana enda varðar frv. fyrst og fremst félaga í því stéttarfélagi. Ákvæði í 1. gr. er sambærilegt við ákvæði í 17. gr. laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, hvað varðar stöðu starfsmanna ríkisins þegar verkefni voru flutt til sveitarfélaga í tilraunaskyni.

Að öðru leyti skýrir málið sig sjálft og ég legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.