Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 13:57:37 (4267)

1999-03-03 13:57:37# 123. lþ. 76.11 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 123. lþ.

[13:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Við höfum rætt um að gera breytingu á þingsköpum og fallist á að fara í þá vinnu. Þó það sé ekki að finna í þingskapafrv. sem við höfum nú ráðgert að fjalla um þá virðist mér stærsta máli að farið að vera hve seint megi leggja þingmál fram. Hve seint megi leggja þingmál fram. Eins og við vitum er það hálft ár frá upphafi þings. Þar með virðist hægt að leggja fram frumvörp, stjórnarfrumvörp og önnur alveg til 1. apríl. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að ár eftir ár skuli komið með frumvörp á síðustu stundu. Alltaf eru þetta það góð mál að þingið á að hafa skilning á því að þau verði að gera að lögum. Yfirleitt er höfðað til þess að stjórnarandstöðunni beri að hafa skilning á því. Á nokkrum dögum er ætlast til að fram komi frumvörp til 1. umr., verði vísað til nefndar, fái umfjöllun í nefnd óháð því sem þar liggur fyrir, komi til baka og verði að lögum.

Í dag er miðvikudagur, nákvæmlega viku fyrir áformuð þinglok og enn eitt stjfrv. kemur inn. Það er sett inn á dagskrá í fyrirspurnatíma og það á ganga til atkvæða um það af því að það á að komast til nefndar og verða að lögum. Það er óviðunandi að við skulum sífellt fá frv. svo seint inn til þingsins sem raun ber vitni.

Frv. sem hér er mælt fyrir kom til umræðu á fundi félmn. sl. haust undir allt öðru máli. Þá bar á góma að gera þyrfti breytingu eins og hér er lögð til. Við sem þar áttum hlut að máli töldum dálítið vafasamt að setja í lög þetta ákvæði sem hér er gerð tillaga um. Við hvöttum til þess að reynt yrði að fara aðra leið ef unnt væri.

[14:00]

Þessi lagagrein, sem hér á að lögbinda, er um það að á meðan tilraunasveitarfélag er með tímabundinn samning við ríkið varðandi málefni fatlaðra eigi hlutaðeigandi starfsmenn svæðisskrifstofu sem þar eru í störfum að vera í þjónustu sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar en þá má félmrh. framselja til sveitarfélagsins, byggðasamlagsins eða héraðsnefndarinnar allar þær valdheimildir sem framkvæmdastjórar svæðisskrifstofu hafa samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það á engin formbreyting að verða á ráðningarstöðu starfsmanna, þeir eiga áfram að vera ríkisstarfsmenn og þannig á að fara með laun þeirra og starfskjör. En öðruvísi á að fara með aðra sem ráðnir verða samhliða þeim í sveitarfélaginu. Það kemur fram í greinargerðinni að nýir starfsmenn muni ekki heyra undir lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þannig að starfsmenn sömu stofnunar heyra undir stjórnunarheimildir ólíkra stjórnsýslustiga. Þetta er óheppilegt. Þetta getur alveg gengið, það getur allt gengið en þetta er óheppilegt. Síðan vaknar spurningin: Er þetta ekki fordæmisgefandi, bæði þegar verið er að gera þjónustusamninga við sveitarfélög eða svæðisstofnanir? Er þetta ekki fordæmisgefandi varðandi ríkisfyrirtæki sem fara yfir á eitthvert annað stjórnsýslustig? Og hafa menn séð fyrir hvort þetta er í lagi?

Á örfáum dögum eigum við að reyna að átta okkur á því hvaða afleiðingar þetta mál getur hugsanlega haft og hvaða áhrif það hefur í framtíðinni en við eigum enga möguleika á því. Það er það sem er að, og þegar þar við bætist að við í félmn. vitum að snemma í haust lá fyrir að gera þessa lagabreytingu þá er það óskiljanlegt að málið skuli koma inn sjö dögum fyrir þinglok. Nú er það svo að mörg mál bíða umræðu. Sum eru góð, önnur síðri. Eitt af þeim málum sem bíða er skýrsla félmrh. um framkvæmd verkefnis um reynslusveitarfélög árið 1997 til 1998. Við fáum væntanlega engan tíma til að ræða slík mál. Við erum upptekin af að taka mál til 1. umr. og ræða byggðaáætlun í heilan dag. Byggðaáætlun ríkisstjórnar sem er að fara frá völdum, en lítum á bls. 7 í skýrslu félmrh. sjálfs um framkvæmd verkefnis um reynslusveitarfélög.

Þar er verið að fara yfir hvaða ábendingar og reynsla er af reynslusveitarfélagaverkefnunum, sem eru út af fyrir sig góð verkefni. Ábendingar eru um erfiðleika vegna yfirtöku á fjársveltum stofnunum, almennur vilji sveitarfélaga er til að halda áfram reynslusveitarfélagaverkefnunum, sveitarfélögin telja að það að vera reynslusveitarfélag hafi gjarnan í för með sér ákveðna innri tiltekt. Ég bið þingmenn að taka eftir því, innri tiltekt, þannig að fleiri þættir í stjórnsýslu þeirra eru teknir til endurmats og skoðunar en sjálf verkefnin. Á sama tíma erum við með ákveðið klúður í sambandi við starfsmennina.

Síðan segir að nauðsynlegt sé að hyggja sem fyrst að lagabreytingum ef halda á einhverjum reynslusveitarfélagaverkefnum áfram. Og á bls. 7 stendur: ,,Bent var á að þegar komi að frekari verkefnatilfærslu á þessu sviði valdi starfsmannamál ákveðnum vandkvæðum.`` Í þessu sambandi var talið afar óheppilegt, hæstv. forseti, að starfsmenn nytu ólíkra kjara vegna mismunandi stéttarfélagsaðildar.

Það fer ekki hjá því að það veki til umhugsunar að vera annars vegar með skýrslu sem bendir á vandkvæðin sem hafa verið og áherslur sveitarfélaganna að finna lausn á því sem hefur verið vandi, eitt af því er að óheppilegt sé að starfsmenn njóti ólíkra kjara vegna mismunandi stéttarfélagsaðildar, og fá síðan frv. af þessum toga nokkrum dögum fyrir þinglok og finna þrýstinginn á að afgreiða það og taka fyrir í nefnd með þeim verkefnum sem þar eru, því auðvitað snýr þetta að hag starfsmanna á þessum stöðum. Þetta eru engin vinnubrögð.

Herra forseti. Ég er ekki að lýsa yfir hér og nú hvernig ég muni bregðast við tillögunni sem slíkri um þessa lagagrein. En mér finnst dapurlegt að hafa átt þátt í að vera með ábendingu til starfsmanna félmrn. á haustdögum um að reyna að finna leið til að koma ekki með slíkt frv. inn í þingið, vita þess vegna að þetta var til umræðu snemma á haustdögum og vera síðan boðið upp á að málið komi inn sjö dögum fyrir þinglok. Mér er sem þingmanni svo misboðið að mér er skapi næst að leggja til að málinu verði vísað frá.