Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:06:10 (4268)

1999-03-03 14:06:10# 123. lþ. 76.11 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 123. lþ.

[14:06]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. ræðumanni sem talaði á undan mér að vinnubrögðin í sambandi við þetta mál hljóta að vekja mikla furðu. Málið kom til félmn. rétt fyrir jól, þá í tengslum við umræðu um fjárlög. Það var nánast á síðasta degi og nefndin var einhuga um að ekki væri hægt að afgreiða þetta mál á svo skömmum tíma. Nú gerist það aftur að mælt er fyrir málinu örfáum dögum fyrir þinglok og væntanlega er ætlast til að nefndin afgreiði málið á þeim örfáu stundum sem eftir eru því það vita allir þingmenn að næstu daga verða reyndar nefndastörf. Það er náttúrlega búið að skipuleggja þann tíma sem þá er til reiðu og verður kannski eitthvað að hnika til út af þessu máli. En maður furðar sig á vinnubrögðum ráðuneytisins og hvers vegna í ósköpunum það gerist að margir mánuðir líða. Málið er lagt fram fyrir jól, síðan líða margir mánuðir þar til málið kemur aftur hér inn og aftur á síðustu stundu, því það hlýtur öllum að vera ljóst að við hljótum að verða að leita álits stéttarfélaganna. Ég get ekki áttað mig á því við lestur þessa frv. hvort þetta hefur í för með sér einhverjar breytingar fyrir viðkomandi starfsmenn. Ég get bara ekki áttað mig á því hvað það þýðir að heyra ekki lengur undir lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og að öll þau réttindi séu færð yfir til sveitarfélaganna.

Í frv. segir, með leyfi forseta: ,,Drög að frv. voru kynnt stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana, enda varðar frumvarpið fyrst og fremst félaga í því stéttarfélagi.`` Hver voru viðbrögð stéttarfélagsins? Lagði stéttarfélagið blessun sína yfir þetta mál? Ég hef ekki hugmynd um það en það hlýtur að vera skylda okkar að leita til viðkomandi stéttarfélaga og reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir. Þess vegna hlýt ég að mótmæla því að svo seint skuli vera mælt fyrir þessu máli. Það hefur reyndar legið hér í nokkra daga í þinginu og ég held að félmrn., eins og ýmis önnur ráðuneyti, þurfi að skoða svolítið vinnubrögð sín hvað þetta varðar. Það er ekki hægt að koma hingað og ætlast til að mál séu bara afgreidd á færibandi. Það kann vel að vera að við verðum öll sammála um að þetta sé hið besta mál og bráðnauðsynlegt og tryggi réttarstöðu starfsmanna og guð veit hvað, en við verðum einfaldlega að hafa tíma til að skoða það.

Fyrir örfáum dögum var skýrslu félmrh. um framkvæmd verkefnis um reynslusveitarfélög dreift hér og það hefði auðvitað verið ástæða til að ræða þau mál og reynsluna af þeim tilflutningi, ekki síst tilflutningi málefna fatlaðra til þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið þau mál til sín. Við í hv. félmn. höfum fengið tækifæri til að heimsækja bæjarfélög sem hafa tekið yfir þann málaflokk, m.a. Hornafjörð, og það virtist vera sem bæði starfsmenn þar og þeir sem njóta þjónustunnar væru býsna ánægðir, en því er ekki að leyna að skiptar skoðanir eru meðal sveitarfélaganna á því hvort og hvenær eigi að færa málefni fatlaðra til þeirra. Því hefur verið frestað, m.a. vegna þess að við nánari skoðun kemur í ljós að slíkur tilflutningur er flókið mál. Meira að segja hér í Reykjavíkurborg, þar sem er að finna langstærsta hóp fatlaðra, er þetta ekkert smámál og menn óttast að ekki fylgi nauðsynlegt fjármagn en það er allt framtíðarmál.

Í skýrslu þeirri sem ég var að vitna til kemur fram að jákvæð reynsla virðist vera af þessum tilflutningi og það er grundvallarskoðun mín að það sé oftast best að þeir sem annast málefnin séu sem næst þeim sem eiga að njóta þjónustunnar og vonandi gildir það í þessum málefnum.

Það er í sjálfu sér ekki mikið um þetta frv. að segja. Það er ekki ljóst af efni þess og þess sem hér kemur fram hvað þetta þýðir raunverulega gagnvart viðkomandi starfsmönnum. Eins og vitnað var til virðist það vera reynslan hjá þeim sveitarfélögum sem hafa tekið málaflokkinn í sínar hendur að það sé óþægilegt að ósamræmi sé á milli kjara og kjarasamninga og að fólk á sama vinnustað tilheyri mismunandi stéttarfélögum. Sumir eru í starfsmannafélögum viðkomandi bæja, aðrir eru ríkisstarfsmenn og þess vegna er það nú sem farið er fram á þessa lagabreytingu. En enn og aftur, hæstv. forseti, hlýt ég að setja ákveðna fyrirvara við þessa málsmeðferð alla og það hvort nefndinni tekst að afgreiða þetta mál. Það er hin stóra spurning og enn og aftur harma ég það að svona skuli vera staðið að málum. Ef þetta er svona mikilvægt, jafnmikilvægt og hæstv. félmrh. vill vera láta og fram kemur í frv. þá hlýtur maður auðvitað að spyrja hvers vegna í ósköpunum ráðuneytið sjái ekki til þess að málið komi nægilega snemma fram. Svona vinnubrögð eru Alþingi ekki til sóma, að afgreiða mál á þennan hátt, og hér þarf að verða bót á.