Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:43:35 (4278)

1999-03-03 14:43:35# 123. lþ. 77.2 fundur 437. mál: #A framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þegar unnið var að undirbúningi að framkvæmdaráætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna var sérstaklega litið til stöðu kvenna úti á landsbyggðinni í kjölfar breyttra þjóðfélags- og atvinnuhátta. Lögð var áhersla á að reynt yrði að finna leiðir til þess að bregðast við þessu máli. Þess vegna var þetta ákvæði sett inn í framkvæmdaáætlunina og ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. forsrh. fyrir spurningar og svör í þessu máli. Ég held að hér sé um að ræða mikilvægan þátt, bæði í að efla hlut kvenna almennt og treysta búsetu á landsbyggðinni. Við vitum að mjög miklar þjóðfélagsbreytingar hafa orðið og haft breytingar í för með sér fyrir konur og starfssvið þeirra, m.a. í sjávarútvegi og landbúnaði, höfuðatvinnugreinum landsbyggðarinnar. Þess vegna er til valið tilefni til að hyggja sérstaklega að stöðu þessara mála. Ég vil ítreka þakkir mínar til málshefjanda og hæstv. forsrh. fyrir þeirra hlut að umræðunni hér í dag.