Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:44:47 (4279)

1999-03-03 14:44:47# 123. lþ. 77.2 fundur 437. mál: #A framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Í máli hans kom réttilega fram að ýmsar kannanir hafa verið gerðar á stöðu landsbyggðarinnar og stöðu kvenna. Við vissum, þegar við settum þennan lið inn í framkvæmdaáætlunina, að þetta snerist um að safna saman og skoða sérstaklega þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir. Þær kunna þó að leiða í ljós að ákveðna þætti þurfi að kanna betur.

Mér barst nýlega í hendur glæný skýrsla um stöðu kvenna á Norðurlandi vestra. Þar hefur verið starfandi jafnréttisfulltrúi. Þar var unnin skýrsla þar sem margt athyglisvert kemur fram. Ég hef ekki tíma til þess að ræða ítarlega um hana hér en þar er eitt til viðbótar sem gæti hjálpað okkur til þess að átta okkur á því hvað brennur á konum á landsbyggðinni, hvers vegna þær flytja í burtu í jafnvel ríkara mæli en karlar. Þannig hefur það alla vega verið.

Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. virðast konur í ráðuneyti hans vera töluvert fleiri en karlar. Það segir auðvitað ekki alla söguna. Auðvitað þarf að skoða launakjörin og ýmislegt sem snýr að störfunum. Ég hvet til þess að menn fylgi framkvæmdaáætluninni eftir og geri slíkar úttektir á öllum ráðuneytum. T.d. kom margt athyglisvert fram þegar slík rannsókn fór fram í fjmrn. Það mættu önnur ráðuneyti taka sér til fyrirmyndar.