Iðnfyrirtæki í matvælaframleiðslu, hreinlætisvöru- og plastiðnaði

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:47:32 (4280)

1999-03-03 14:47:32# 123. lþ. 77.3 fundur 320. mál: #A iðnfyrirtæki í matvælaframleiðslu, hreinlætisvöru- og plastiðnaði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mun tala fyrir fyrirspurn frá Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur sem sat á þingi fyrir áramót og lagði fram fyrirspurn til hæstv. iðnrh. á þskj. 387, um iðnfyrirtæki í matvælaframleiðslu, hreinlætisvöru og plastiðnaði. Það hefur komið í minn hlut, innan þingflokks jafnaðarmanna og núna þingflokks Samfylkingarinnar, að fylgja þessu máli úr hlaði og ganga eftir svörum hæstv. iðnrh.

Í þeirri gagnasöfnun sem Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir hefur gert vegna þessarar fyrirspurnar hefur komið fram að staðan í matvælaiðnaði er mjög erfið. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun og Samtökum iðnaðarins kemur m.a. fram að innflutningur matar- og drykkjarvöru jókst um 31% frá janúar til ágúst á síðasta ári. Verðmæti innlendrar matar- og drykkjarvöru jókst hins vegar einungis um 14%. Þannig hefur markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu minnkað verulega og er það vitaskuld mikið áhyggjuefni.

Í afkomukönnun sem Samtök iðnaðarins gerðu kemur sömuleiðis fram að afkoma í matvælaiðnaði hefur versnað stórlega milli áranna 1997 og 1998 og er þá bæði miðað við hagnaðartölur og hlutfall af veltu. Því er ljóst, herra forseti, að iðnaður sá sem hér er spurt um hefur átt við erfiðleika að etja, einkum á síðasta ári. Það olli ekki einungis þáverandi þingmanni áhyggjum heldur einnig Samtökum iðnaðarins og öðrum í viðskiptalífinu.

Í framhaldi af því má nefna vandamál sem tengjast þessu, þ.e. hinn mikla viðskiptahalla ríkisstjórnarinnar og þensluhættu, hvort tveggja nokkuð sem oft hefur verið bent á í almennri efnahagsumræðu.

Fyrirspurn hv. þm. Þórunnar Sveinbjörnsdóttur til hæstv. iðnrh. er svohljóðandi:

,,1. Hvernig hefur samkeppnisstaða íslenskrar matvælaframleiðslu þróast á síðustu missirum í samanburði við iðnaðinn í heild og aðrar greinar?

2. Hefur orðið samdráttur hjá iðnfyrirtækjum í matvælaframleiðslu, hreinlætisvöru- og plastiðnaði á þessum tíma með tilliti til tekna og afkomu? Ef svo er, er það lýsandi fyrir iðnaðinn í heild?

3. Hvað hefur störfum í þessum fyrirtækjum fækkað mikið á sama tíma?

4. Mun ráðherra bregðast á einhvern hátt við samdrætti í fyrrnefndum greinum?``