Iðnfyrirtæki í matvælaframleiðslu, hreinlætisvöru- og plastiðnaði

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:56:17 (4282)

1999-03-03 14:56:17# 123. lþ. 77.3 fundur 320. mál: #A iðnfyrirtæki í matvælaframleiðslu, hreinlætisvöru- og plastiðnaði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör við fyrirspurn frá Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur sem ég talaði fyrir áðan. Ljóst er að af svörum ráðherra má lesa staðfestingu þess sem ég hélt fram í upphafi og Þórunn Sveinbjörnsdóttir hafði grun um, þ.e. að samkeppnisstaða iðngreinanna hefði versnað verulega. Markaðshlutdeildin er ótvírætt minni og afkoman lakari. Hversu háar tölurnar eru í þessu sambandi er e.t.v. ekki ástæða til að fullyrða um, en það er augljóst að greinin býr við erfiða stöðu.

Það er ánægjulegt að samkvæmt svari ráðherra hefur störfum ekki fækkað í þessum greinum, eftir þeim upplýsingum sem hann hafði. Hann gat réttilega um að þær væru e.t.v. ekki mjög nákvæmar á þessu stigi málsins, en þeim ber að fagna.

Ráðherrann nefndi hins vegar að það væri ekki ástæða til að bregðast sérstaklega við þessu. Hann taldi ekki þörf á sértækum aðgerðum. Hann nefndi að vexti þyrfti að lækka. Ég bendi hins vegar á að nýverið hækkuðu vextir svo að þar rekst hvað á annars horn en látum það vera. Meginniðurstaða bæði fyrirspurnarinnar og svarsins er sú að þessi iðnaður á undir högg að sækja í uppsveiflunni sem við búum við í samfélaginu. Hversu alvarlegur þessi vandi verður þegar fram líða stundir er ekki gott að fullyrða um en ég sé fulla ástæðu til að taka undir áhyggjur Þórunnar Sveinbjörnsdóttur sem vakti máls á þessu. Þessi mál þarf að kanna nánar.