Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:02:04 (4284)

1999-03-03 15:02:04# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir ber fram fsp. um fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir. Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Ef kemur til nýrrar stóriðju hér á landi, hvar verður hún staðsett?``

Þeir stóriðjukostir sem verið hafa til skoðunar að undanförnu gætu í sjálfu sér verið staðsettir víða um land. Staðarval fer m.a. eftir tegund, umfangi stóriðju, orkuþörf, vatnsþörf, hafnsækni, starfsmannafjölda og þjónustu sem í boði er á svæðinu.

Verði um nýja orkufreka stóriðju að ræða, þ.e. að nýtt fyrirtæki verði byggt, þá mun það verða staðsett utan suðvesturhorns landsins. Fyrir því eru fjórar meginástæður.

Í fyrsta lagi þurfa þau fyrirtæki sem nú hafa risið í orkufrekum iðnaði á stærstum hluta þeirrar orku að halda sem er vinnanleg á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu og er á samkeppnisfæru verði með tilliti til þeirra stækkana sem fyrirhugaðar eru í þessum fyrirtækjum.

Í öðru lagi er ekki pólitísk samstaða um að flytja þá raforku sem vinnanleg er á Austurlandi, til suðvesturhorns landsins.

Í þriðja lagi er frá umhverfislegum og kostnaðarlegum sjónarmiðum óskynsasmlegt að fara út í slíka flutninga.

Í fjórða lagi er það stefna ríkisstjórnarinnar að nýta orkulindirnar til atvinnusköpunar og byggðaþróunar þar sem þær eru staðsettar.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hvernig standa samningar við Norsk Hydro um byggingu álvers við Reyðarfjörð?``

Skemmst er frá því að segja að unnið hefur verið að undirbúningi samninga við Norsk Hydro um byggingu álvers við Reyðarfjörð um nokkurt skeið. Þessi vinna hefur gengið samkvæmt áætlun og hafa tímabundnir erfiðleikar Norsk Hydro vegna lægðar á mikilvægum hrávörumörkuðum í heiminum ekki breytt áformi fyrirtækisins hér á landi. Á undanförnum missirum hafa verið gerðar umfangsmiklar athuganir á hugsanlegu álveri og virkjunum í tengslum við það á Austurlandi. Þessar athuganir spanna staðarvalsathuganir, forhönnun mannvirkja, athuganir á virkjanakostum og orkuflutningi, samfélagsathuganir, veðurmælingar, gróðurfarsathuganir og aðrar umhverfisathuganir.

Á síðustu mánuðum hafa rannsóknir beinst að byggingu 120 þús. tonna álvers við Hraun í Reyðarfirði með stækkunarmöguleikum síðar. Nú liggja fyrir áætlanir um umfangsmiklar framhaldsathuganir á álverinu og á umhverfisáhrifum þess, eignaraðild og fjármögnun. Um þessar áætlanir og athuganir verður fjallað á næstu vikum og mánuðum og um mitt árið er stefnt að því að undirrita samkomulag milli Norsk Hydro og íslenskra stjórnvalda um framhald málsins.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hvaða aðrar framkvæmdir eru áformaðar náist ekki samkomulag við Norsk Hydro og á hvaða stigi eru þeir samningar?``

Unnið verður áfram að þeim verkefnum sem áður er getið, þar á meðal álveri á Austurlandi. Auk Norsk Hydro hafa aðrir erlendir aðilar sýnt áhuga á að skoða Reyðarfjörð fyrir álver af svipaðri stærð en með annarri tækni. Náist ekki samkomulag við Norsk Hydro á næstunni í samræmi við þær áætlanir sem unnið hefur verið eftir verður leitað annarra leiða að sama markmiði, m.a. með því að fylgja áhuganum eftir sem komið hefur fram hjá ýmsum aðilum um byggingu orkufreks iðnaðar á landsbyggðinni.