Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:08:44 (4287)

1999-03-03 15:08:44# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Viðræðurnar við Norsk Hydro eru stærsta atvinnuþróunarverkefni sem hefur verið í gangi á Austurlandi og það byggist á orkuöflun í stærri stíl. Um þetta eru hatrömm átök og það er nauðsynlegt fyrir alla stjórnarliða að standa í lappirnar í þessu máli. Nauðsynlegt er að leiða það verkefni til lykta, af eða á, og það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að þetta verkefni tefji fyrir atvinnuþróun á öðrum sviðum á Austurlandi. Það hafa verið í gangi verkefni á ýmsum sviðum, eins og menn ættu að vita.

Hér gengur maður undir manns hönd að reyna að eyðileggja þetta verkefni með því að segja að það sé búið að vera og er þáttur í því mikla áróðursstríði sem hefur verið í kringum verkefnið. Það er auðvitað ekki séð hvernig þessu lyktar, en þetta verkefni er nauðsynlegt að leiða til lykta, af eða á, og auðvitað eiga menn að standa að baki iðnrh. í því efni.