Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:14:17 (4290)

1999-03-03 15:14:17# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Reynslan er sú, og hún er ólygnust í þessu öllu saman, að aldrei er hægt að fullyrða hvort að kostur eins og sá sem hér er um að ræða, hugsanleg bygging álvers á Reyðarfirði, verður að veruleika fyrr en samningar hafa verið undirritaðir. Það þekkja þeir best sem studdu og stóðu að síðustu ríkisstjórn og þekkja blekkingarvef Alþfl. út og inn í þeim efnum. Það þekkja þeir best og þau leiktjöld sem þar voru dregin upp, hvernig fólkið í landinu var blekkt og ginnt til að halda að þar væru stórkostlegir draumar fram undan.

Herra forseti. Reynslan er sú að ekki er hægt að fullyrða um að slíkir samningar gangi eftir fyrr en þeir hafa verið undirritaðir.

Hins vegar er alveg ljóst að hvorki hv. þm. Hjörleifur Guttormsson né hv. þm. Össur Skarphéðinsson vita betur en stjórnendur Norsk Hydro hvort þeir ætli að eiga frekara samstarf við Íslendinga eða ekki. Það er staðfest af fulltrúum og eigendum þess fyrirtækis að samningaviðræðum við Íslendinga er haldið áfram. Næsti fundur, stórfundur um málið, verður í júní eða júlí á þessu ári, þar sem gengið verður út frá því að látið verði reyna á samstarfið. Þá kemur í ljós hvort aðilar eru tilbúnir til að undirrita samkomulag sem gengur út á það að báðir aðilar verði í stakk búnir til að eyða milljónum króna, hundruðum milljóna króna, í rannsóknir á svæðinu. Í júní eða júlí á að láta reyna á hvort það samkomulag gengur eftir eða ekki. Menn verða líka að hafa í huga, af því ég heyri það á hv. fyrirspyrjanda að örlítils misskilnings gætir, að það er ekki Norsk Hydro eitt sem er í þessu verkefni. Það er talað um stóra innlenda eignaraðild. Íslenskir aðilar sýna því áhuga að vera þátttakendur. Það birtist best í yfirlýsingu bankastjóra Landsbankans fyrir stuttu síðan fyrir austan, þar sem hann lýsti því yfir að Landsbankinn væri tilbúinn til að taka þátt í verkefni sem þessu. (Gripið fram í.) Auðvitað fer fram umhverfismat við álverið við Reyðarfjörð eins og lög gera ráð fyrir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem fyrrverandi umhvrh. ætti manna best að þekkja það.