Landgrunnsrannsóknir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:17:06 (4291)

1999-03-03 15:17:06# 123. lþ. 77.5 fundur 539. mál: #A landgrunnsrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Álit starfshóps iðnrn. um olíuleit við Ísland kom fram 15. júní 1998. Þá kom þar fram að gert væri ráð fyrir að gerð verði kort eftir dýptarmælingum sjómælinga til að staðsetja stalla þar sem hugsanlegt smit úr setlögum kynni að finnast og gerðar verði endurkastsmælingar á botni úr setlögum til að kortleggja brot, andhverfu og gasstíga og mæla olíuefni í botnssýnum. Talið var að kostnaður við þennan áfanga gæti orðið 30--50 millj. Að áfanganum loknum yrðu líkur á olíu eða gasi endurmetnar og áhugi olíufélaga kannaður. Í öðru lagi var svo gerð tillaga um að reyndist ástæða til að halda áfram yrði í öðrum áföngum gerð djúpkönnun og borun á svæðinu. Sá áfangi sem tæki 3--5 ár yrði mun dýrari og vart á færi annarra en olíufélaganna sem keyptu til þess leitar- og vinnsluleyfi. Í honum er gert ráð fyrir þéttari endurkastsmælingum til að kanna þykkt, útbreiðslu og lagskiptingu setlaganna og rannsóknaborun á eyju, t.d. í Grímsey, til að kanna dýpri setlög og hvort í þeim hafi þroskast olía.

Í blaðaviðtali við hæstv. iðnrh., sem birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember, sagði iðnrh. svo, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra hyggst skipa þriggja manna samráðsnefnd með fulltrúum iðnaðarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar til að vaka yfir íslenskum hagsmunum á sviði olíu- og landgrunnsmála og samhæfa viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna fyrirspurna olíuleitarfyrirtækja um rannsókna- og vinnsluleyfi í íslenskri lögsögu.``

Þá hafði komið fram, áður en viðtal var við hæstv. iðnrh. að þegar væru tvö erlend félög sem hefðu hug á að kanna möguleika á leit að olíu við Ísland. Af þessu gefnu hef ég lagt fram svohljóðandi fsp. í þremur liðum til hæstv. iðnrh.:

1. Hve miklu fé verður varið á þessu ári til rannsókna á olíu og gasi í setlögum fyrir Norðurlandi?

2. Hvernig hyggst ráðherra vinna úr þeim tillögum sem starfshópur er skipaður var af iðnaðarráðuneyti 29. september 1997 lagði til í skýrslu sinni við starfslok 15. júní 1998?

3. Hefur ráðherra skipað samráðsnefnd með fulltrúum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar til að vaka yfir íslenskum hagsmunum á sviði olíu- og landgrunnsmála og samhæfa viðbrögð við fyrirspurnum erlendra aðila?