Landgrunnsrannsóknir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:20:13 (4292)

1999-03-03 15:20:13# 123. lþ. 77.5 fundur 539. mál: #A landgrunnsrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 863 spyr hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson um landgrunnsrannsóknir.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm. ,,Hve miklu fé verður varið á þessu ári til rannsókna á olíu og gasi í setlögum fyrir Norðurlandi?``

Í fjárlögum fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir 2 millj. kr. til hafsbotnsrannsókna. Reikna má með að þessir fjármunir fari að miklu leyti til að greiða kostnað vegna aðstoðar sem nýskipuð samráðsnefnd þarf að kaupa vegna starfs síns. Í kjölfar skipunar samráðsnefndarinnar má gera ráð fyrir að breytingar verði á áherslum varðandi þessar rannsóknir. Ekki þótti fært að taka tillit til tillagna um rannsóknir í fjárlagagerð fyrir árið 1999 þar sem þær komu seint fram og samráðsnefndin hafði tæpast hafið störf.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hvernig hyggst ráðherra vinna úr þeim tillögum sem starfshópur er skipaður var af iðnaðarráðuneyti 29. september 1997 lagði til í skýrslu sinni við starfslok 15. júní 1998?``

Hlutverk starfshópsins var að yfirfæra niðurstöður rannsókna á landgrunninu og meta á grundvelli þeirra hvort og þá hvaða svæði landgrunnsins kunni að geyma olíu og/eða jarðgas. Af niðurstöðum starfshópsins er ljóst að líklegt mætti telja að einhver svæði landgrunnsins hefðu að geyma olíu og/eða jarðgas og var honum jafnframt falið að meta hvort tæknilegar og fjárhagslegar forsendur væru til olíuvinnslu. Einnig var honum falið að gera tillögur um hvernig efla mætti rannsóknir á svæðum sem líklegt væri að kynnu að geyma olíu eða jarðgas. Í þriðja lagi var honum falið að gera tillögur um kynningu á þessum svæðum til að efla áhuga innlendra og erlendra aðila á svæðunum sem er hugsanlegt að geymi olíu og/eða jarðgas.

Starfshópurinn skilaði ráðuneytinu skýrslu sinni með bréfi, dags. 17. ágúst 1998. Í skýrslunni leggur starfshópurinn til að rannsóknum verði haldið áfram og þær skiptist í tvo áfanga. Í fyrri áfanganum sem yrði að mestu kostaður af íslenskum stjórnvöldum verði leitast við að svara því hvort beinn vottur um olíu finnist í setlögunum. Í síðari áfanga yrði farið í djúpkönnun og borun sem yrði mun dýrari og vart á færi annarra en olíuleitarfélaga sem keyptu til þess leitar- og vinnsluleyfi af íslenskum stjórnvöldum.

Þá lagði starfshópurinn til að eflt yrði samstarf um rannsókn landgrunnsins. Enn fremur að fylgst yrði náið með framvindu mála á svæði sem varðar hagsmuni Íslands miklu, svo sem Jan Mayen og Hatton-Rockall. Til að sinna olíuleitarmálum og hrinda tillögu nefndarinnar í framkvæmd var með bréfi, dags. 17. febrúar sl., skipuð þriggja manna samráðsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar Orkustofnunar, utanrrn. og iðnrn.

Hlutverk samráðsnefndarinnar er:

1. Að gæta íslenskra hagsmuna á sviði olíu- og landgrunnsmála, m.a. með því að fylgjast með olíuleit á nálægum svæðum.

2. Að fylgjast með tækniþróun í olíuleit og olíuvinnslu.

3. Að gera tillögur um stefnu sem skuli fylgt við veitingu rannsókna- og vinnsluleyfa á landgrunninu.

4. Að samhæfa vinnubrögð íslenskra stjórnvalda vegna fyrirspurna um rannsókna- og nýtingarleyfi innan efnahagslögsögunnar.

5. Að gera tillögur um kynningu á íslenska landgrunninu til að efla áhuga á rannsóknum á því.

6. Að koma fram og annast samskipti við þá aðila sem sýna áhuga á rannsókna- og nýtingarleyfum. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda hafa tvö erlend olíuleitarfyrirtæki sýnt íslenska landgrunninu áhuga í þessu sambandi.

7. Að gera tillögur um rannsóknaverkefni á sviði olíuleitar og landgrunnsmála sem kostuð yrðu af ríkisfé.

8. Að annast samstarf við norsk stjórnvöld og norsku olíuleitarstofnunina vegna Jan Mayen-svæðisins og dönsk og færeysk stjórnvöld vegna Hatton-Rockall svæðisins.

9. Að stuðla að því að gögn um landgrunnið séu varðveitt með skilvirkum hætti.

Að síðustu spyr hv. þm.: ,,Hefur ráðherra skipað samráðsnefnd með fulltrúum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar til að vaka yfir íslenskum hagsmunum á sviði olíu- og landgrunnsmála og samhæfa viðbrögð við fyrirspurnum erlendra aðila?``

Svarið er: Já.