Eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:32:13 (4296)

1999-03-03 15:32:13# 123. lþ. 77.10 fundur 460. mál: #A eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Kerfisbundið eftirlit með tannheilsu Íslendinga hefur nú staðið yfir í nokkra áratugi. Óhætt er að segja að það hafi skilað verulegum árangri og segja má að sá árangur sé með því besta sem þekkist í veröldinni.

Árangurinn er svo góður að tannlæknar eru sín á milli farnir að ræða um verkefnaskort vegna góðrar tannheilsu íslensku þjóðarinnar sem er afleiðing þessa markvissa eftirlits. Í framhaldi af þeim góða árangri er eðlilegt að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að nýta þá jákvæðu og einstaklega góðu reynslu til áframhaldandi sóknarfæra. Með öðrum orðum að stíga næstu skref og nýta þá merkilegu reynslu sem hefur fengist af kerfisbundnu eftirliti með tannheilsu fólks.

Er hægt að nýta reynsluna í tengslum við aðra þætti heilsugæslunnar, á heilsugæslustöðvum og hjá læknastéttinni almennt, með mjög markvissu forvarnastarfi? Það mætti t.d. gera með því að bjóða öllum einstaklingum, þegar þeir verða 40 ára gamlir, að koma til skoðunar á læknastofum eða heilsugæslustöðum. Á þeim aldri, þ.e. um fertugt, kunna ýmsir sjúkdómar að vera á byrjunarstigi og örugglega ástæða til að skoða og veita einstaklingum ráðgjöf. Þannig kynnu menn að ná taki á sjúkdómum á byrjunarstigi áður en þeir komast á alvarlegt stig.

Rétt er að vekja athygli á því að frá því að heilsugæslu í grunnskóla lýkur má segja að engin markviss og kerfisbundin heilsufarsskoðun eigi sér stað meðal þjóðarinnar, ef undan er skilinn sá þáttur sem ég vék að í upphafi, tannheilsan, tannverndarstefnan. Með því að kalla alla fertuga einstaklinga þjóðarinnar til skoðunar mætti sjá almennt heilsufarsástand þeirra, veita þeim ráðgjöf í framhaldi af því og grípa inn í sjúkdóma áður en þeir verða alvarlegir. Kostnaður af slíku kann að verða mikill í byrjun. Með sanni má hins vegar segja að þetta væri sparnaður til langframa. Bætt heilsa hlýtur einfaldlega að draga úr útgjöldum, bæta bæði heilsu og líðan þjóðarinnar almennt. Reynslan af tannverndarstefnunni sýnir það svo ekki verður um villst. Því beini ég þeim spurningum til hæstv. heilbrrh. sem fram eru lagðar hér á þingskjali 758.