1999-03-03 15:47:06# 123. lþ. 77.6 fundur 554. mál: #A viðbrögð Landsbanka og Búnaðarbanka við úrskurði kærunefndar jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í svari viðskrh. við fsp. í febrúar 1998 um bifreiðastyrki og stöður í bankakerfinu kom fram að mjög hallaði á konur í yfirmannsstöðum innan bankakerfisins. Af svarinu mátti líka draga þá ályktun að kerfi fastra bifreiðastyrkja væri notað til þess að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum, sérstaklega innan Landsbankans og Búnaðarbankans. Bæði þingflokkur jafnaðarmanna og Samband ísl. bankamanna fóru þess á leit við Jafnréttisráð í kjölfar þessarar niðurstöðu að kannað yrði hvort um væri að ræða brot á jafnréttislögum.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála var að afgerandi munur væri á bifreiðastyrkjum til kynjanna innan Landsbankans og Búnaðarbankans sem bryti í bága við jafnréttislög. Frá því að kærunefnd jafnréttismála kvað upp úrskurð sinn, sem var í lok síðasta árs, hefur ekkert heyrst um það hvernig stjórnendur bankanna hafa framfylgt niðurstöðu nefndarinnar. Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til viðskrh.:

1. Hvað hafa stjórnendur Landsbanka og Búnaðarbanka gert til að framfylgja úrskurði kærunefndar jafnréttismála frá 30. desember sl. þess efnis að sá afgerandi munur sem væri á bifreiðastyrkjum til kynjanna innan bankanna bryti í bága við jafnréttislög og þeim tilmælum að viðunandi lausn yrði fundin á málinu?

2. Hvernig hyggst ráðherra tryggja að þessi launamismunur verði leiðréttur, sbr. 5. og 6. gr. jafnréttislaga?

3. Telur ráðherra í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu að þörf sé á að mótaðar verði reglur í bönkum og öðrum innlánsstofnunum sem tryggi að ákvarðanir um bílastyrki og önnur hlunnindi byggist á hlutlausum og gegnsæjum viðmiðunum og komi þannig í veg fyrir að starfsmönnum sé mismunað eftir kynferði?