1999-03-03 15:58:07# 123. lþ. 77.6 fundur 554. mál: #A viðbrögð Landsbanka og Búnaðarbanka við úrskurði kærunefndar jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég kann því mjög illa þegar ég hef ekki fleiri mínútur til að ræða þessi mál að hæstv. ráðherra noti sinn tíma til þess að bera mér það á brýn að þessi fsp. sé sett fram af því að ég sé refsiglöð og vilji koma á rannsóknarnefndum varðandi málið. Þetta er náttúrlega algjörlega út í hött, herra forseti. Það sem er athyglisvert og upp úr þessu stendur er að ég er að reyna að fá stofnanir í þjóðfélaginu, opinberar stofnanir, til þess að virða lög í landinu. Þessar stofnanir ætla ekki að fara að þessum lögum, heldur hunsa niðurstöðu og úrskurð kærunefndar sem er skipuð samkvæmt lögum og ráðherrann ætlar að láta þar við sitja.

Þessu máli er ekki lokið, herra forseti. Kærunefndin og Jafnréttisráð hafa upplýst mig um að ekki hafi borist fullnægjandi svör frá þessum bönkum og ég tel það þessum ráðherra til háborinnar skammar ef hann ætlar ekkert að aðhafast í málinu. Það er eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn sem ekkert hefur gert til þess að stuðla að launajafnrétti í landinu.