Ferða- og dvalarkostnaður

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 16:09:56 (4310)

1999-03-03 16:09:56# 123. lþ. 77.9 fundur 456. mál: #A ferða- og dvalarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir þau svör sem hér komu fram. Mér heyrist að sú reglugerð sem nú nýlega hefur verið staðfest mæti mun betur en áður þörfum fólks utan af landi ef það verður sjúkt eða þarf að leita sér lækninga á höfuðborgarsvæðinu.

Það er umhugsunarefni, nú árið 1999, af hverju fyrst nú er verið að setja raunhæfar reglur til þess að mæta væntingum þess fólks sem undirritaði kjarasamninginn fyrir fjórum árum síðan. Ég er alveg handviss um að það er rétt hjá því fólki sem reynslu hefur að þær reglur sem settar voru árið 1996 voru að mörgu leyti til þrengingar. Þær gerðu fólki erfiðara fyrir. Sú skýring að þær reglur hafa ekki leitt til hækkunar, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, er helst að reglurnar voru að sumu leyti skýrari. En þær voru líka þrengri. Hitt er svo ánægjulegt ef aukin þjónusta út um landið hefur átt sinn þátt í því að minnka kostnaðinn svo um munar.

Herra forseti. Ekki verður hjá því komist að fólk þurfi að leita hingað til lækninga einfaldlega vegna þess að hjá fámennri þjóð verður sérfræðiþjónusta ýmiss konar ekki framkvæmd eða veitt nema e.t.v. á einum eða tveimur stöðum. Þess vegna er svo mikilvægt að þær reglur sem settar eru um stuðning við fólk til þess að jafna aðstöðu þess séu þannig að þær mæti virkilega þörfum fólks í þessum efnum.

Ég bind vonir við að þær reglur sem ráðherra hefur nú nýlega staðfest skili okkur lengra áleiðis í áttina að jafnræði þegnanna en þær reglur sem áður giltu.