Skortur á hjúkrunarfræðingum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:01:25 (4311)

1999-03-03 18:01:25# 123. lþ. 77.11 fundur 491. mál: #A skortur á hjúkrunarfræðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. heilbr.- og trmrh. að gefnu tilefni því að fyrr á þessum vetri kom fram könnun sem gerð hafði verið á þeim skorti á hjúkrunarfræðingum sem væri bæði á spítölum og heilsugæslustöðvum og bitnaði líka á umönnun aldraðra. Í framhaldi af því hef ég leyft mér að leggja svohljóðandi spurningar fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh.:

,,1. Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa þar sem fram hefur komið að á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga vantar til starfa?

2. Telur ráðherra að úr brýnustu þörf megi bæta með aukinni menntun sjúkraliða?``

Seinni spurningin er komin fram að gefnu tilefni því ekki fyrir löngu las ég viðtal við hjúkrunarfræðing sem var nokkuð athyglisvert og vakti þessa spurningu upp í huga mínum. Ég ætla, með leyfi forseta, að grípa aðeins niður í viðtalið við þennan ágæta hjúkrunarfræðing þar sem hún segir svo:

,,Á skurðstofunni urðum við að aðstoða lækna við aðgerðir og við svæfðum sjúklingana. Nú eru sérmenntaðir svæfingarlæknar við þessi störf. Starf hjúkrunarkvenna eða hjúkrunarfræðinga, eins og starfsheitið er nú, hefur breyst verulega. Þegar ég var að læra og á fyrstu árum þar á eftir voru hjúkrunarkonurnar meira í sjálfri hjúkruninni. Svo komu sjúkraliðar og þeir eru ómissandi enda vinna þeir flestir störf sín af hugsjón. Nú eru það í raun sjúkraliðar sem sinna sjúklingum. Hjúkrunarfræðingarnir sinna svo öðrum störfum.``

Herra forseti. Það verður áhugavert að heyra svör hæstv. heilbr.- og trmrh. við þessum spurningum.