Skortur á hjúkrunarfræðingum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:07:01 (4314)

1999-03-03 18:07:01# 123. lþ. 77.11 fundur 491. mál: #A skortur á hjúkrunarfræðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:07]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hennar. Það verður athyglisvert að sjá niðurstöður þeirrar könnunar sem ráðherra gat um áðan og heyra skoðun landlæknis á því hver sé meginástæðan fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum.

Það er hins vegar umhugsunarefni þegar hjúkrunarfræðingar sjálfir láta hafa það eftir sér í viðtali í blöðum, t.d. þeirri grein sem ég gat um áðan, að það séu raunverulega sjúkraliðarnir sem sinna sjúklingunum en hjúkrunarfræðingarnir sinni öðrum störfum. Þess vegna kemur upp í huga mér sú spurning: Getur verið að það sé möguleiki á því að auka fræðslu sjúkraliða, t.d. í þá veru að þeir gætu tekið að sér að sprauta sjúklinga og gætu hugsanlega tekið að sér einhvern hluta lyfjagjafar?

Eins og kom fram hér hjá hv. 16. þm. Reykv., Katrínu Fjeldsted er þetta kannski spurning um niðurröðun á starfi og samstarfi annars vegar sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga og svo hins vegar hjúkrunarfræðinga og lækna. Í heilbrigðisstéttinni eða heilbrigðisgeiranum, ef svo má komast að orði, virðist vera einhver ákveðin niðurröðun á samskiptum milli þessara starfshópa sem kannski væri líka full ástæða til að skoða hvort ekki mætti hafa annan hátt á. Þá á ég við að stytta t.d. boðleiðir á milli læknis og sjúkraliða, án þess að það kæmi á nokkurn hátt illa við stétt hjúkrunarfræðinga.

Allt er þetta mál þó þess eðlis og þannig vaxið að nauðsynlegt er að gripið verði til þeirra ráðstafana að koma í veg fyrir þann skort sem er á hjúkrunarfræðingum.