Skortur á hjúkrunarfræðingum

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 18:09:23 (4315)

1999-03-03 18:09:23# 123. lþ. 77.11 fundur 491. mál: #A skortur á hjúkrunarfræðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:09]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að auðvitað sinna hjúkrunarfræðingar hjúkrun fyrst og fremst.

Ég gat þess ekki í fyrra svari mínu að nú eru á annað hundrað hjúkrunarfræðingar í framhaldsnámi og það kemur auðvitað þungt niður á sjúkrahúsunum á meðan á því stendur. En ég á von á því að með vorinu skáni ástandið.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted spurði hvort það væri ekki rétt að sjúkraliðar gætu starfað undir stjórn lækna. Það er þannig í nokkrum tilvikum. Það er ekki almennt en það er þannig í nokkrum tilvikum.

Eins og ég sagði áðan er verið að auka menntun sjúkraliða. Það hefur verið að gerast á undanförnum árum og þeir hafa í vaxandi mæli verið í ýmsum sérhæfðum störfum.