1999-03-03 18:35:12# 123. lþ. 77.13 fundur 508. mál: #A tengsl heilbrigðisstétta við rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., TIO (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:35]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil gera mjög alvarlega athugasemd við þau orð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að það hafi verið tilgangur minn með ræðuflutningi við gagnagrunnsumræðuna og raunar líka með fsp. minni, sem ég lagði fyrir hæstv. heilbrrh., að gera starf Krabbameinsfélagsins tortryggilegt. Ég tók það afar skýrt fram í öllum mínum ræðum að ég teldi að með óbilgjarnri kröfu um upplýst samþykki, þegar upplýsingar úr sjúkraskrám væru endurnýttar til rannsókna, þá væri verið að setja starf Krabbameinsfélagsins í hættu. Ég lagði alltaf mikla áherslu á að starf Krabbameinsfélagsins væri afar mikils virði og að ekki mætti skaða það starf. Þessar aðdróttanir eru því afar sérkennilegar og ég velti fyrir mér undan hvaða rótum þær eru runnar.