Löggæslumenn í Kópavogi

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:01:46 (4338)

1999-03-03 19:01:46# 123. lþ. 77.16 fundur 506. mál: #A löggæslumenn í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:01]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í framhaldi af erindi bæjarráðs Kópavogs, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkislögreglustjóra, sem fer með yfirstjórn löggæslu í landinu í umboði dómsmrh., um þetta efni. Umsögn ríkislögreglustjóra barst ráðuneytinu í lok febrúarmánaðar. Þar kemur fram að þær tölur sem nefndar eru í áskorun bæjarráðs eru réttar en jafnframt tekið fram að af 27 lögreglustjóraembættum í landinu eru 10 embætti með fleiri en 600 íbúa á bak við hvern lögreglumann, þar af átta með fleiri en 700 íbúa og fjögur með fleiri en 800 íbúa að baki hverjum lögreglumanni. Staða mála í Kópavogi er því ekki einsdæmi að þessu leyti.

Ríkislögreglustjóri lætur það álit í ljós að þegar litið er til fjölda lögreglumanna í Kópavogi og Hafnarfirði beri að hafa í huga að þessi lögreglulið starfa við hlið fjölmennasta lögregluliðs landsins, lögreglunnar í Reykjavík, en stöðuheimildir lögreglumanna þar eru 289. Reynslan sýnir að auðvelt er fyrir þessi lögreglulið að fá skjóta aðstoð frá lögreglunni í Reykjavík hvenær sem er enda byggðarlögin nánast samgróin.

Í Reykjavík eru 411 íbúar á bak við hvern lögreglumann. Ríkislögreglustjórinn lítur svo á að þessir lögreglumenn nýtist jafnframt Kópavogi og Hafnarfirði þegar á þurfi að halda. Ef lagður er saman íbúafjöldi í Kópavogi og Reykjavík og síðan fjöldi lögreglumanna á þessum stöðum kemur í ljós að íbúafjöldi á bak við hvern lögreglumann á svæðinu yrði 446 eða talsvert fyrir neðan landsmeðaltal. Ef Hafnarfirði væri bætt við yrði fjöldi íbúa á bak við hvern lögreglumann 477 sem er einnig neðan við landsmeðaltal.

Hins vegar segir í umsögn ríkislögreglustjóra að ef eingöngu er borinn saman fjöldi lögreglumanna í Kópavogi og Hafnarfirði að fjölga þyrfti lögreglumönnum um fjóra í Kópavogi ef gæta ætti samræmis við Hafnarfjörð.

Í niðurlagi umsagnar ríkislögreglustjóra kemur fram það mat að nægjanlega margir lögreglumenn séu á Stór-Reykjavíkursvæðinu í heild sinni og því ekki sérstök ástæða til fjölgunar lögreglumanna þar. Hins vegar megi geta þess að vert væri að kanna hvort forsendur væru fyrir hendi fyrir samnýtingu eða jafnvel sameiningu lögregluliðanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Ríkislögreglustjóri telur að ætla megi að endurskipulagning á stjórn löggæslunnar og lögregluumdæmum mundi leiða til þess að löggæsla á svæðinu efldist. Í því sambandi megi nefna meiri samnýtingu mannaflans, tækja og búnaðar. Þá gæti slík breyting einnig haft áhrif til meiri samnýtingar vegna símsvörunar og stjórnunar fyrir allt svæðið sem gerði það væntanlega að verkum að fleiri lögreglumenn en ella yrðu tiltækir við störf úti við í stað afgreiðslu inn á við. Það hefur verið stefna ríkislögreglustjórans að reyna að breyta áherslum í starfsemi lögreglu í þá veru að sem flestir lögreglumenn vinni við bein löggæsluverkefni og skrifstofufólk sinni skrifstofustörfum en ekki lögreglumenn.

Niðurstaða þessarar athugunar ríkislögreglustjóra er einfaldlega sú að á höfuðborgarsvæðinu öllu er eðlilegur fjöldi lögreglumanna. Við úrlausn á því verkefni sem hér er spurst fyrir um liggur fyrst og fremst fyrir að huga að skipulagslegum breytingum og nánari samvinnu og samstarfi lögregluembættanna sem í hlut eiga.