Áfengiskaupaaldur

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:08:38 (4341)

1999-03-03 19:08:38# 123. lþ. 77.17 fundur 552. mál: #A áfengiskaupaaldur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:08]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi urðu nokkrar umræður í þingsal og í hv. allshn. um áfengiskaupaaldurinn í tengslum við frv. sem þá lá fyrir allshn. um breytingar á áfengislögum. Niðurstaðan í allshn. varð sú að leggja til að við ákvæði til bráðabirgða í áfengislögunum kæmi ákvæði sem fæli í sér að dómsmrh. átti þegar í stað að skipa sex manna nefnd sem hefði það verkefni að kanna hvort æskilegt væri að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi. Nefndin átti samkvæmt frv., sem varð að lögum, að gera grein fyrir viðfangefni sínu af hlutleysi. Hún átti m.a. að kanna þætti eins og að skilgreina kosti og galla breytinga á áfengiskaupaaldri, kanna reynslu annarra þjóða í því efni, kanna hvernig efla þyrfti forvarnir og eftirlitsstarf til að stuðla að jákvæðum áhrifum slíkra breytinga, ef af yrði, og hvernig standa ætti að þeim undirbúningi og meta áhrif þess til lengri og skemmri tíma að færa áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár og meta hvort rétt væri að færa áfengiskaupaaldurinn tímbundið niður í 18 ár til að kanna reynslu slíkra breytinga og í lokin að meta hvort rétt væri að skoða samhliða slíkri breytingu að færa aldur til ökuleyfis úr 17 í 18 ár.

Þetta frv. með þessu ákvæði til bráðabirgða varð að lögum 5. júní á síðasta ári og skal niðurstaða nefndarinnar og skýrsla um starf hennar að vera lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings, eins og þar stendur, eða með öðrum orðum hefði átt að leggja fram niðurstöður og tillögur nefndarinnar fram á Alþingi á sl. hausti.

Þar sem þingstörfum verður væntanlega lokið á næstu dögum og er spurt um hvað líði störfum þessarar nefndar og hverjar séu helstu niðurstöður nefndarinnar.