Áfengiskaupaaldur

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:13:36 (4343)

1999-03-03 19:13:36# 123. lþ. 77.17 fundur 552. mál: #A áfengiskaupaaldur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:13]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig sammála hæstv. dómsmrh. um að mikilvægt er, eins og málið var lagt fyrir nefndina, að hrapa ekki að niðurstöðum og þarna hafi verið um tímafrekt úrlausnarefni að ræða. Þess heldur hefði nefndinni auðvitað ekki veitt af þeim tíma sem hún hafði til úrlausnar á þessu verkefni sem var raunverulega fjórir mánuðir.

En hæstv. ráðherra upplýsir að það hafi dregist um nokkurra mánaða skeið að skipa nefndina og ég spyr hæstv. ráðherra hvenær nefndin var skipuð. Var hún skipuð eftir að hún átti að leggja tillögur sínar fyrir þingið?

Auðvitað er slæmt, eins og við ræddum áðan varðandi heilbrrh., að þá átti hæstv. heilbrrh. samkvæmt þáltill. að leggja fram tillögur um stefnumótun í málefnum langveikra barna núna um áramótin. En það er auðvitað enn verra, herra forseti, þegar um er að ræða ákvæði til bráðabirgða sem bundið er í lögum, raunverulega lagafyrirmæli til hæstv. dómsmrh. um að skila tillögum á tilsettum tíma eins og þar er um getið, eða í upphafi næsta þings, þ.e. á síðustu haustdögum, að þá skuli upplýst á lokadögum þingsins hve störf nefndarinnar hafa dregist í þessu efni.

[19:15]

Við því er ekkert að gera. Þetta er eins og í hinu málinu. Við stöndum frammi fyrir því að hæstv. ráðherra sinnti ekki lagaskyldu sinni, þ.e. að skipa nefndina. Það sem hæstv. ráðherrann nefnir, að nefndin telji nauðsynlegt að bíða eftir niðurstöðu könnunar sem unnið er að, skil ég vel. Ég skil að nauðsynlegt sé að gera það. Við þurfum að vanda vel til þess þegar svona verkefni er lagt í hendur þessarar nefndar svo þingmenn, hvort sem þeir eru með eða á móti þeirri tillögu sem ég hef nú talað fyrir, þ.e. að lækka áfengiskaupaaldurinn, geti áttað sig á henni.

En ég harma, herra forseti, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki sinnt betur lagafyrirmælum sínum og spyr hann hvenær þessi nefnd hafi verið skipuð. Var hún skipuð eftir að hún átti að skila af sér niðurstöðu hér á hv. Alþingi?