Útsendingar útvarps og sjónvarps

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:20:45 (4346)

1999-03-03 19:20:45# 123. lþ. 77.19 fundur 536. mál: #A útsendingar útvarps og sjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:20]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessar fyrirspurnir og áhuga hans á þessu máli. Hv. þm. hefur komið fram með þetta mál oftar en einu sinni á þessu kjörtímabili og fylgt því vel eftir.

Þegar þessar spurningar bárust var umsagnar leitað hjá Ríkisútvarpinu. Ég byggi svör mín á upplýsingum frá forstöðumanni þróunarsviðs þess.

Fyrst er spurt: ,,Hver yrði stofnkostnaður og árlegur rekstrarkostnaður við að senda dagskrár útvarps og sjónvarps um gervitungl til fiskimiðanna umhverfis Ísland og þeirra staða á landinu sem nú búa við óviðunandi móttökuskilyrði?``

Svarið er: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum mun kostnaður við samsendingar sjónvarps- og útvarpsdagskrár um gervitungl vera á bilinu 60--80 millj. kr. á ári. Við þessa upphæð bætist stofnkostnaður jarðstöðvar til sendingar dagskrár til gervitunglsins, um tíu millj. kr., og árlegur rekstrarkostnaður hennar.

Þá er spurt: ,,Þarf sérstakan móttökubúnað til að ná slíkum sendingum? Ef svo er, hvað mundi hann kosta?

Svarið er: Það þarf sérstakan móttökubúnað til að taka á móti þessum sendingum. Fyrir skip þarf búnaðurinn að vera stefnuvirkur, óháður veltingi og stefnu skipsins. Nokkur íslensk skip hafa slíkan búnað og er loftnetshluti hans kúlulaga um 120 sm í þvermál og um 120 kg að þyngd. Hann er notaður til að taka á móti erlendu sjónvarps- og útvarpsefni. Í þessari stærð kostar hann um 2 millj. kr. Á landi þarf búnað með móttökudisk sem er 120--180 sm í þvermál og fer stærð disksins eftir móttökustyrk frá gervitunglinu. Búnaðurinn kostar um 120--200 þús. kr. að mati forstöðumanns þróunarsviðs Ríkisútvarpsins. Sjónlínu þarf frá móttökustað til gervitunglsins sem er yfir miðbaug. Af því leiðir að nokkur skuggasvæði eru á landinu, sérstaklega þar sem landslag skyggir á til suðurs.

Að lokum er spurt: ,,Er mögulegt að nota möstrin á Gufuskálum og Eiðum fyrir sjónvarpssendingar til fiskimiðanna? Ef svo er, hve langt næðu slíkar sendingar og hver yrði stofnkostnaður og árlegur rekstrarkostnaður?``

Svarið er: Möstrin á Gufuskálum og Eiðum eru loftnet langbylgjusendanna þar. Stærð mastranna er í hlutfalli við bylgjulengd burðarbylgju útsends merkis. Möstrin er ekki unnt að nota sem loftnet fyrir sjónvarpssendingar þar eð þær eru á mun hærra tíðnisviði en langbylgjusendingar.

Herra forseti. Eins og þessi svör bera með sér, og með hliðsjón af því sem hv. þm. sagði í ræðu sinni þegar hann kynnti fyrirspurnir sínar, er ljóst að gjörbylting hefur orðið í tæknibúnaði á þessu sviði á þeim fjórum árum sem hv. þm. hefur unnið að þessu máli og náð verulegum árangri á því sviði. Ég tel þessar tölur sem ég hef hér lesið og þær hugmyndir sem menn hafa nú um hlutverk gervitungla við miðlun á sjónvarpsefni þess eðlis að þennan kost beri að skoða af fullri alvöru. Raunar hef ég beint því erindi til útvarpsstjóra og Ríkisútvarpsins að vinna verði sett í að skoða þetta mál nánar. Ef það kosti á bilinu 60--80 millj. kr. á ári að senda út sjónvarps- og útvarpsdagskrár héðan frá Íslandi um gervitungl þá er það miðlunarleið sem skoða ber af mikilli alvöru. Auk þess er ljóst að kostnaður við slíkar sendingar mun væntanlega frekar lækka en hækka. Menn verða einnig að huga að því að breytingarnar á útsendingu, m.a. þegar menn huga að stafrænum sendingum, gefa kost á að velja á milli þess að nýta sér gervitunglin annars vegar og hins vegar kapla eins og breiðbandið. Þetta eru kostir sem við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að skoða án tillits til þess hvort við getum í leiðinni náð því markmiði að íslenskir sjómenn á hafi úti geti fylgst með sjónvarps- og útvarpsdagskrá, sé það tæknilega unnt og kostnaður sé á því bili að ráðlegt sé að fara út í slíkar framkvæmdir.