Samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:31:49 (4350)

1999-03-03 19:31:49# 123. lþ. 77.18 fundur 530. mál: #A samstarf mennta- og sjúkrastofnana til að bæta úr læknaskorti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:31]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Háskóli Íslands útskrifar 36 læknakandídata árlega. Um 900 læknar eru nú starfandi á Íslandi en um 500 íslenskir læknar starfa erlendis. Er talið líklegt að þriðjungur til fjórðungur þeirra muni snúa heim. Fyrirsjáanlegt er að skortur verður á læknum á landinu innan 10--15 ára.

Ekki er síður mikið áhyggjuefni að áhugi á heimilislækningum hefur farið dvínandi og virðist vera hverfandi hjá læknanemum í dag. Miðað við núverandi áætlanir heilbrrn. um uppbyggingu heilsugæslunnar er reiknað með eitthvað yfir 200 stöðugildum heimilislækna á Íslandi á allra næstu árum. Til að viðhalda þeim fjölda þarf nýliðun í greininni að vera sjö til tíu stöðugildi á ári að meðaltali. Þetta kemur fram í könnun sem Sigurður Halldórsson heilsugæslulæknir í Norður-Þingeyjarsýslu hefur gert á áhuga unglækna á námi í heimilislækningum.

Nú er starfandi 171 heimilislæknir hér á landi, þar af einn í aldursflokknum 30--34 ára. Af 186 læknanemum árganganna 1995--1999 eru tveir í heimilislæknanámi. Þegar áhugi læknanema á heimilislækningum var kannaður kom í ljós að af þeim 145 sem svöruðu sögðust sex stefna að sérnámi í heimilislækningum en níu töldu sig líklega til að stefna í slíkt nám.

Meðaltal þeirra sem voru ákveðnir eða sýndu áhuga eru þrír á ári. 27 sýndu áhuga á frekari kynningu á námi og starfi í heimilislækningum.

Ljóst er af þessu að í mikið óefni stefnir í heimilislækningum á landinu. Eru þó fyrirsjáanleg mun meiri vandræði á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og eru þau nú þegar komin í ljós. Landlæknir hefur undanfarið kynnt þessi mál og hugsanlegar úrlausnir á ýmsum vettvangi og hefur kynning hans vakið mikla athygli.

Þá hefur Gísli Auðunsson læknir á Húsavík beitt sér fyrir umræðum um málið. Hann fékk hingað til landsins prófessor Roger Strasser frá Ástralíu en Strasser er í forustu fyrir heimssambandi dreifbýlislækna og kom hann hingað í tengslum við vísindaþing heimilislækna á 20. afmælisári Félags ísl. heimilislækna í nóvember 1998. Meðal þeirra úrræða sem góð reynsla er af er að þjálfa lækna sérstaklega til að starfa í strjálbýli og hvetja til þess með ýmsum aðgerðum að auka áhuga unglækna á heimilislækningum í dreifbýli, bæta ímynd starfsins og aðstæður heimilislækna í dreifbýli ekki síst til endurmenntunar. Því hef ég lagt eftirfarandi spurningu fyrir hæstv. menntmrh.:

Er ráðherra reiðubúinn til þess að kanna möguleika á samstarfi Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og annarra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á landsbyggðinni til að bæta úr vaxandi skorti á heimilislæknum á landsbyggðinni með hliðsjón af þeim hugmyndum, sem fram hafa komið, m.a. hjá landlækni, um að bregðast við vandanum með því að skipuleggja sérstaka þjálfun og námsframboð sem miðað yrði við þarfir heimilislækna sem starfa í dreifbýli?