Meðferð opinberra mála

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 10:49:19 (4359)

1999-03-06 10:49:19# 123. lþ. 79.3 fundur 354. mál: #A meðferð opinberra mála# (réttarstaða brotaþola, endurupptaka mála o.fl.) frv. 36/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[10:49]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og frsm. hv. allshn. sagði tókst mjög góð samstaða í hv. allshn. um það mál sem hér er til umræðu en efni þess er í megindráttum að styrkja réttarstöðu brotaþola. Því vil ég sérstaklega fagna að um þetta náðist góð samstaða og einnig að mjög góð samstaða náðist um veigamiklar brtt. sem nefndin leggur til á frv.

Það var sammerkt með þeim umsagnaraðilum sem á einhvern hátt fjalla um börn að þeir fögnuðu almennt þeim ákvæðum sem frv. felur í sér sem er mikil réttarbót til þess að styrkja réttarstöðu bortaþola og má þar nefna bæði Barnaverndarráð, Barnaverndarstofu, neyðarmóttöku og umboðsmann barna en ýmsar af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram af hæstv. ráðherra eru samkvæmt tillögum umboðsmanns barna.

Ég held að þau réttarúrræði sem hér er verið að lögfesta séu mjög brýn og hafi verið það lengi og löngu orðið tímabært að ráðast í þessar breytingar. Það kemur einmitt fram í umsögnum ýmissa umsagnaraðila að hér er brýnt mál á ferðinni. Ég vil þar sérstaklega nefna neyðarmóttökuna en frá því að neyðarmóttakan tók til starfa hefur verið hægt að fá t.d. ókeypis aðstoð lögmanns en það hefur ekki verið hægt í Barnahúsi sem var komið upp fyrir ekki löngu síðan og mjög brýnt var úr að bæta. Einnig kveður frv. á um skyldu til þess að réttargæslumaður komi til ef um væri að ræða börn undir 18 ára aldri en sú skylda var ekki fyrir hendi ef um var að ræða börn sem væru eldri en 18 ára og var sérstaklega tiltekið af fulltrúum neyðarmóttöku og reyndar fleiri aðilum sem sendu umsagnir um það mál, að mjög brýnt væri að hafa þá skyldu líka þó að í hlut ættu börn eldri en 18 ára þegar um væri að ræða kynferðisbrot. Eins og formaður nefndarinnar kom inn á fjallaði nefndin ítarlega um þetta og vil ég því sérstaklega fagna að samstaða náðist í nefndinni um að gera breytingu á þessu í samræmi við tillögu, ekki síst frá neyðarmóttökunni, um að þetta næði einnig til barna eldri en 18 ára, ef um væri að ræða kynferðisbrot.

Tillögur sem nefndin leggur líka til, þ.e. breytingar á frv., eru að heimild réttargæslumanns til aðgangs að gögnum verði rýmkuð og að aðgangurinn verði ekki einskorðaður við gögn sem honum eru nauðsynleg til að aðstoða brotaþola við að setja fram einkaréttarkröfur. Hér er á ferðinni mjög brýn brtt. sem náðist líka samkomulag um sem og að ríkissaksóknara verði í öllum tilvikum skylt að tilkynna brotaþola um áfrýjun.

Ég vil einnig nefna að nefndin leggur til að gildistökuákvæði greinarinnar verði flýtt, sem átti að vera að mig minnir 1. júlí, en nefndin hefur flýtt gildistökuákvæði frv. til 1. maí 1999, þannig að lagt er til í brtt. nefndarinnar að gildistakan verði 1. maí, sem ég tel mjög mikilvægt vegna þess að ýmis mál eru í gangi í kerfinu sem mjög brýnt er að ákvæði þessa frv., ef að lögum verður, tillögur og breytingar nái einnig til.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, í nokkrum orðum um leið og ég þakka fyrir þá góðu samstöðu sem náðist í hv. allshn. um þessar breytingar.