Skaðabótalög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:12:12 (4366)

1999-03-06 12:12:12# 123. lþ. 79.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, Frsm. meiri hluta SP
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:12]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa uppi mörg orð. En ég ætla að þakka hv. þm. fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað um frv. Hér er um mjög stórt og vandmeðfarið mál að ræða enda skaðabótarétturinn eitt flóknasta svið lögfræðinnar og tryggingastærðfræðin sjálf.

Saga þessa máls á hinu háa Alþingi hefur verið rakin nokkuð og ætla ég ekki að ræða um það en hins vegar að víkja nokkuð að þeim tveim brtt. sem hv. minni hluti allshn. hefur lagt fram.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á 4. gr. frv. Um hana er að segja að ég tel að búið sé að fara rækilega yfir þetta atriði, bæði í nál. og í framsögu með frv. og því tel ég ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um það. Meiri hluti allshn. getur ekki samþykkt þessa brtt. og ég hygg að rök okkar hafi komið skýrt fram í málinu.

Varðandi brtt. í öðru lagi sem felur í sér viðbót við 13. gr. frv. hefur hún einnig verið rædd, bæði í nál. og í framsögu með frv. Við höfum að sjálfsögðu samúð með þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði sérstaklega grein fyrir áðan. En það er rétt hjá henni að meiri hluti nefndarinnar treysti sér ekki til þess að mæla með samþykkt tillögunnar. Við byggjum m.a. á því mati sérfærðinga að ekki sé rétt að telja upp sérstök tilvik í lagatextanum sjálfum.

Virðulegi forseti. Allir hv. þm. eru sammála því að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða sem felur í sér miklar réttarbætur og verði að afgreiða fyrir þinglok. Undir þetta tek ég að sjálfsögðu. Ég vil í lokin þakka nefndarmönnum í allshn. fyrir vandaða meðferð málsins.