Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:16:17 (4368)

1999-03-06 12:16:17# 123. lþ. 79.6 fundur 135. mál: #A sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur# frv. 33/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:16]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þetta er algerlega ný lagasmíð sem þörf hefur verið á að væri til staðar.

Nefndin fjallaði venjubundið um málið og sendi það til umsagnar og fékk á sinn fund ýmsa þá aðila sem létu sig málið varða.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim brtt. sem efh.- og viðskn. leggur til á frv. en hún skrifar öll undir nál. en þar af skrifa þó þrír nefndarmenn með fyrirvara.

Efh.- og viðskn. gerir brtt. við 1. gr. frv. sem er þó fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Ég vek athygli á að ný málsgrein bætist við greinina: ,,Um aðrar sjálfseignarstofnanir en þær sem lög þessi taka til fer eftir lögum um sjóði og stofnanir sem starfa eftir staðfestri skipulagsskrá eða öðrum lögum eftir því sem við á.``

Við 3. gr. er gerð brtt. þar sem fjallað er um skilgreiningar á því hvað það þýðir þegar sjálfseignarstofnun stundar atvinnurekstur. Þetta er tæknileg breyting.

Við 4. gr. er fyrst og fremst gerð sú efnislega breyting að öldrunarstofnanir eru undanþegnar gildissviði laganna.

Við 6. gr. frv. er gerð brtt. og settur inn nýr málsliður svohljóðandi til þess að gera þá grein skýrari: ,,Að öðru leyti fer um heiti sjálfseignarstofnunar eftir ákvæðum firmalaga eftir því sem við á.``

Við 7. gr. er gerð brtt. þannig að 1. mgr. orðist sem þar segir: ,,Stjórn sjálfseignarstofnunar sem ætlað er að stunda atvinnurekstur skv. 3. gr. skal tilkynna hana til skráningar hjá sjálfeignarstofnanaskrá áður en atvinnurekstur hefst, þó eigi síðar en sex mánuðum frá dagsetningu stofnskjals.``

Í 6. lið brtt. er tillaga til breytingar á 8. gr. sem er tæknilegs eðlis.

Sömuleiðis er brtt. við 9. gr. tæknilegs eðlis.

Í 10. gr. er stofnfé samkvæmt tillögu nefndarinnar lækkað þannig að það verði 1 millj. í stað 2 millj.

Síðan er brtt. við 12. gr. um að síðari málsl. 3. mgr. falli brott. Enn fremur er gert ráð fyrir að þegar stofnfé hækkar skuli það framkvæmt áður en tilkynnt er og hækkun öðlist ekki gildi fyrr en við tilkynningu. Ef ákvörðun um hækkun hefur ekki verið tilkynnt innan árs, fellur hún úr gildi.

Við 13. gr. eru gerðar brtt. sem eru tæknilegs eðlis fyrst og fremst.

Við 14. gr. eru gerðar veigamiklar breytingar. 2. mgr. er breytt og orðast þá þannig:

,,Ef ekki eru tilskilin ákvæði um það í samþykktum hvernig standa skuli að vali stjórnar skal fulltrúaráð velja stjórn ef slík stjórnareining er fyrir hendi en ella skulu stjórnarmenn velja nýja menn til setu í stjórninni. Við val stjórnarmanna skal einfaldur meiri hluti ráða nema á annan veg sé mælt í samþykktum. Falli atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða. Sé ekki valinn stjórnarmaður í stað þess sem lætur af störfum innan árs skal ráðherra velja hann. Ráðherra skal að jafnaði velja menn til stjórnarsetu sem hafa þekkingu eða tengsl við starfssvið sjálfseignarstofnunar.``

Hér er verið að skýra út hvenær ráðherra getur gripið inn í stjórnarskipan í sjálfseignarstofnunum.

Við 15. gr. er gerð brtt. þannig að 1. mgr. orðist eins og segir í brtt. Þetta er í samræmi við það sem er í hlutafélagalögum.

Við 16. gr. eru brtt. sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis.

Við 17. gr. er brtt. sem einnig er tæknilegs eðlis varðandi stjórnarmenn.

Við 18. gr. er gerð tillaga um að hún falli niður enda er efni hennar komið inn í aðrar greinar.

Við 19. gr. er endurorðun sem er einnig að meiri hluta til tæknilegs eðlis.

21. gr., þar sem fjallað er um þóknun fyrir stjórnarmenn, orðist svo: ,,Fulltrúaráð ákveður þóknun stjórnarmanna. Ef fulltrúaráð er ekki í stofnun ákveður stjórnin sjálf þóknun sína. Þóknun stjórnarmanna má ekki vera hærri en venjulegt er miðað við eðli og umfang starfanna.`` Og er þá hægt að höfða mál ef út af bregður en fellt þar niður að ráðherra geti lækkað laun.

Við 22. gr. er tæknileg breyting.

Við 23. gr. er ákvæði um fulltrúaráð sem nefndin telur að sé almennt æskilegt að sé til staðar í sjálfseignarstofnunum.

Við 24. gr. er tæknileg breyting varðandi skiptingu starfa innan stjórnar.

Við 25. gr. er gerð tæknileg breyting og sömuleiðis við 26. gr. og 29. gr.

Við 31. gr. er einnig almenn breyting varðandi endurskoðendur sem er í takt við það sem almennt gildir.

Við 33. gr. er líka gerð tillaga um breytingu og þar er verið að hnykkja á hvernig úthluta megi fjármunum úr sjálfseignarstofnun og að ,,úthlutun fjármuna skal vera eðlileg með hliðsjón af tilgangi og eignarstöðu stofnunar``.

Við 35. gr. eru gerðar breytingar sem eru fyrst og fremst tæknilegar og í samræmi við hvernig slíkum málum er almennt er hagað.

Við 36. gr. er gerð brtt. sem er tæknilegs eðlis.

Við 37. gr., sem fjallar um slit, er gerð breyting sem er fyrst og fremst í takt við það sem eðlilegt þykir við slit á sjálfseignarstofnunum.

Síðan eru tæknilegar breytingar við 39., 44., og 50. gr.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim brtt. sem nefndin leggur til.