Opinberar eftirlitsreglur

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:26:40 (4371)

1999-03-06 12:26:40# 123. lþ. 79.9 fundur 199. mál: #A opinberar eftirlitsreglur# frv. 27/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:26]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. vegna frv. til laga um eftirlitsstarfsemi á vegum hins opinbera.

Þetta er nýr lagabálkur. Frv. var upphaflega lagt fyrir á 122. löggjafarþingi og síðan endurflutt á yfirstandandi löggjafarþingi. Nefndin hefur því fjallað allmikið um þetta mál og fengið til sín fjölmargar umsagnir frá ýmsum aðilum og nokkrir þeirra hafa komið til fundar við nefndina, sem gert er grein fyrir í nál.

Nefndin gerir nokkrar brtt. við frv. Í 1. lið er brtt. við 1. gr. sem er tæknilegs eðlis.

Við 2. gr. er gerð brtt. sem er orðalagsbreyting annars vegar og hins vegar að síðari málsliður orðist þannig:

,,Eftirlit á vegum hins opinbera má ekki leiða til mismununar né takmarka athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist.`` Þetta er mikil stytting á þeim lið eins og hann er settur fram í upphaflega frv.

Við 3. gr. er endurorðun á 1. mgr. sem verður þá þannig:

,,Þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits.``

Nokkur umræða var um það hvernig þetta ætti að vera og þetta varð niðurstaða nefndarinnar þegar upp var staðið.

Síðan bætist við 2. mgr.: ,,Enn fremur skulu slíkar greinargerðir liggja fyrir þegar þess háttar reglur um eftirlit eru staðfestar í öðrum tilvikum.`` Þ.e. að þegar stjfrv. eru á ferðinni eigi líka að leggja fram greinargerðir.

Við 5. gr. eru brtt. sem eru tæknilegs eðlis. Sömuleiðis við 6. gr. en við 4. málslið hennar er gerð sú tillaga að skipunartími nefndar sem sett er upp samkvæmt greininni skuli vera þrjú ár en hún skuli ekki fylgja embættistíma forsrh. hverju sinni. Síðan eru ákvæði varðandi 2. mgr. þar sem segir: ,,Þeir aðilar sem eftirlit beinist að og aðrir þeir sem hagsmuni hafa af opinberu eftirliti geta óskað eftir athugun nefndarinnar á tilteknum þáttum þess. Ráðherrar geta sent nefndinni til umsagnar mál er varða opinbert eftirlit. Jafnframt getur nefndin átt frumkvæði að athugunum á vissum þáttum eftirlitisins.``

[12:30]

3. mgr. 6. gr. orðist þannig:

,,Starf nefndarinnar skal miða að því að opinberar eftirlitsreglur séu í samræmi við ákvæði 3. gr. og að eftirlit á vegum hins opinbera sé jafnan eins hagkvæmt og kostur er fyrir þau fyrirtæki og einstaklinga sem eftirlitið beinist að og fyrir hið opinbera. Nefndin getur beint tilmælum til forsætisráðherra og annarra ráðherra um að eftirlitsreglur verði endurskoðaðar.``

Þetta er sem sé hlutverk þeirrar nefndar sem sett er upp samkvæmt 6. gr.

Síðan er gert ráð fyrir því við ákvæði til bráðabirgða að í stað þess að ráðuneyti geri úttekt á næstu þremur árum eða endurskoði gildandi eftirlitsreglugerð á næstu þremur árum geri ráðuneytin áætlun um það hvernig þessu starfi skuli hagað.

Fyrirsögn frv. er breytt í 7. lið brtt. nefndarinnar.

Ég hef nú gert grein fyrir nál. og brtt. um þetta mál.