Opinberar eftirlitsreglur

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:31:09 (4372)

1999-03-06 12:31:09# 123. lþ. 79.9 fundur 199. mál: #A opinberar eftirlitsreglur# frv. 27/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., hefur gert grein fyrir nál. efh.- og viðskn. en að því standa allir nefndarmenn og þar með ég ásamt félögum mínum. Ég vil fagna þessari afgreiðslu nefndarinnar. Við höfum lagt mikla vinnu í málið. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi þá hefur málið verið til umfjöllunar hjá okkur á tveimur þingum. Það hefur tekið veigamiklum breytingum í störfum nefndarinnar eins og eðlilegt er með mjög mikilvægan málaflokk, og ég fagna því að samkomulag er um efni þess. Ég er sjálfur sannfærður um að hér sé um að ræða mjög góða lagasetningu, merka lagasetningu sem á eftir að hjálpa okkur til við þá þætti sem málið varða, þ.e. heildstæð löggjöf um opinberar eftirlitsreglur. Þetta er vandmeðfarið en ég tel að með þeim brtt. sem við höfum gert á frv. höfum við náð enn betur utan um efni þess, gert það skýrara og náð um það meiri sátt bæði í samfélaginu og pólitíska sátt með útfærslu. Því ber að fagna vegna þess að verulegur ágreiningur var um frv. í upphaflegri mynd. Sá ágreiningur hefur verið leystur með farsælli vinnu efh.- og viðskn. og ég sé sérstaka ástæðu til þess að færa formanni nefndarinnar, Vilhjálmi Egilssyni, þakkir fyrir hvernig hann hélt á vinnu þessa máls.