Lífeyrissjóður sjómanna

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:39:40 (4375)

1999-03-06 12:39:40# 123. lþ. 79.11 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. gat því miður ekki verið viðstaddur þessa umræðu en hann hyggst flytja yfirlýsingu við 3. umr. málsins þar sem fram mun koma að vandi sjóðsins hafi valdið mörgum erfiðleikum og að vandi sjóðsins sé að hluta til kominn vegna lagasetningar um lífeyrisaldur sjómanna. Í yfirlýsingu ráðherrans mun einnig koma fram að málefni sjóðsins verði áfram til skoðunar í samráði við þau samtök sem að sjóðnum standa og að reynt verði að kanna leiðir til þess að takmarka sem mest röskun á högum þeirra aðila sem eiga réttindi í honum. Þetta mun fjmrh. staðfesta við 3. umr. málsins.

Í brtt. meiri hluta efh.- og viðskn., sem ég mæli hér fyrir, eru gerðar tillögur til breytinga í tíu liðum við frv. Í upphafi má kannski geta þess að þessi lagasetning er ekkert hugsjónaverk eins eða neins sem að henni hefur komið, þar sem það er gert að frumkvæði stjórnar sjóðsins að breyta lögum um hann á þennan hátt. Best hefði verið ef þingið hefði hvergi þurft að koma nálægt málinu.

Enn fremur er verið að stíga skref til baka að mínu mati. Fyrir nokkrum árum var gerð sú breyting á lögum um lífeyrissjóðinn að lögin sem slík urðu tiltölulega rúm og fyrst og fremst rammalöggjöf. En hér er farið út í mjög nákvæma lagasetningu um sjóðinn þar sem atriði sem almennt eru í reglugerðum sjóða eru tekin inn í löggjöfina. Þetta er skref aftur á bak en talið nauðsynlegt af hálfu þeirra sem að sjóðnum standa.

Ég geri nú grein fyrir brtt.:

1. liður brtt. er við 2. gr. frv. Þar er 1. mgr. er endurorðuð þannig:

,,Sjóðfélagar eru allir sem ráðnir eru á íslensk skip, þar með taldir þeir skipverjar sem ekki eru lögskráðir en starfa að viðhaldi og viðgerð skips eða öðrum störfum í þágu útgerðar. Einnig eru sjóðfélagar íslenskir sjómenn sem ráðnir eru á útlend skip sem gerð eru út af íslenskum aðilum.``

Enn fremur verði stjórn sjóðis heimilt að leyfa íslenskum sjómönnum sem starfa á erlendum skipum í rekstri erlendra aðila að greiða iðgjöld til sjóðsins.

2. liður brtt. á við 3. gr. frv. þar sem fjallað er um stjórnarskipan. Þetta er fyrst og fremst tæknilegs eðlis af því að Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda muni eigi lengur vera til.

Við 5. gr. frv. eru líka gerðar brtt. sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og við 7. gr. þess er einnig brtt. sem er tæknilegs eðlis.

Við 8. gr. frv. er brtt. sem hefur efnislega þýðingu. Hún er þannig að við útreikning lífeyris skuli reiknast áunnin stig að fullu. Eins frv. er núna þá er það þannig að séu iðgjaldagreiðsluár fleiri en 30 skal aðeins reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann, en að hálfu stig þeirra ára sem afgangs verða. Þetta er meginbreytingin sem þarna er gerð.

Við 9. gr. frv. eru gerðar brtt. sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og við 10. og 11. gr. eru tæknilegar breytingar sömuleiðis.

Við 15. gr. frv. er brtt. við gildistökuákvæði.

Ég hef nú gert grein fyrir brtt.