Lífeyrissjóður sjómanna

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:44:28 (4376)

1999-03-06 12:44:28# 123. lþ. 79.11 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:44]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, gerði grein fyrir afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar á frv. um Lífeyrissjóð sjómanna. Ég vil taka fram að minni hlutinn á ekki aðild að þessu nál. sem hann kynnti. Við tókum vitaskuld fullan þátt í þessari vinnu. Málið hefur hins vegar verið mjög erfitt en við reyndum að leita lausnar á þeim sérstaka vanda sem þessi sjóður hefur átt við að etja undanfarin ár.

[12:45]

Segja má að ákveðin niðurstaða hafi fengist um hvernig haldið verði á málinu í framhaldinu með þeirri yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. mun kynna við 3. umr. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði grein fyrir efnisatriðum hennar hér áðan. Niðurstaðan er sú að á hinum sérstaka vanda verði tekið og málið skoðað áfram í samráði við aðila þess. Málið er mikilvægt og yfirlýsingin sem fjmrh. mun gefa vegna þessa máls gerir það að verkum að stjórnarandstaðan mun ekki leggjast gegn því. Á heildina litið er málið er hins vegar flókið. Ég ætla ekki að fara yfir þá þætti við 2. umr. Þingmenn þekkja þetta mál vel. Hins vegar er brýnt að tekið sé á þeim málum og þau leyst þannig að þau valdi sem minnstri röskun fyrir sjóðfélaga. Að þeim málum er einmitt vikið í þeirri yfirlýsingu fjmrh. sem fylgir afgreiðslu þessa máls.

Ég vil að lokum, herra forseti, geta þess að sá þingmaður sem hafði forustu um málið í hv. efh.- og viðskn. var Svavar Gestsson, sá hinn sami sem sagði af sér þingmennsku hér í morgun. Hann hélt mjög vel á þessu máli innan nefndarinnar. Segja má að það sé ánægjulegt, þótt hann sé horfinn hér af þingi, að nokkrum klukkutímum eftir að hann kynnti þá ákvörðun sína skuli upplýst í ræðustól á hinu háa Alþingi að hann hafi náð fram bættri stöðu félaga í Lífeyrissjóði sjómanna. Ég tel mikilvægt að þakka hv. fyrrv. þm. Svavari Gestssyni fyrir framgöngu hans í málinu. Ég tel að málinu sé þannig komið að á þessu stigi málsins sé ekki hægt að gera betur.