Lífeyrissjóður sjómanna

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:47:47 (4377)

1999-03-06 12:47:47# 123. lþ. 79.11 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. hv. efh.-og viðskn. með fyrirvara vegna þess að í frv. er ekki tekið á því hver sé eigandi að því mikla fé sem á bak við þau réttindi sem sjóðfélagarnir eiga hjá sjóðnum. Ég hef ítrekað lagt fram brtt. um að lífeyrissjóðir séu eign sjóðfélaga. Ég féll frá því nú þar sem sjóðurinn mun falla undir hin almennu lög um lífeyrissjóði. Ég vænti þess að í framtíðinni verði slíkt ákvæði sett inn í lög sem almennt gilda um lífeyrissjóði, þegar menn hafa áttað sig á því hve mikilvægt er að hinar miklu eignir sem lífeyrissjóðirnir eiga séu sagðar vera eignir sjóðfélaganna.

Þá hafði ég einnig fyrirvara um stjórn sjóðsins. Ég hef það mikla trú á einstaklingnum og alveg sérstaklega sjómönnum að þeir séu færir um að taka fjárhagslegar ákvarðanir og geti valið sér stjórn eigin lífeyrissjóðs og haft bein áhrif á ávöxtun sjóðsins, hvernig því fé er varið. Lífeyrir þeirra í ellinni eða ef þeir verða öryrkjar, stendur og fellur með þeirri ávöxtun.

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um vanda sjóðsins sem er af tvennum toga. Á Alþingi var fyrir löngu ákveðið að ellilífeyrisaldur ætti að lækka niður í 60 ár, án þess að nokkuð væri tekið á því hver skyldi greiða. Þetta var dæmigerð góðmennskulagasetning þar sem menn leysa vandann með því að færa hann bara til. Þetta olli geysilegum halla á sjóðnum og er þáttur í vandanum sem hann glímir við í dag. Reyndar hefur þessu síðan verið breytt en ekki nægilega mikið.

Vandi sjóðsins er einnig sá að sjómenn, vegna eðlis starfsins, búa við mjög háa örorku. Sjóðurinn þarf að greiða mikið í örorkulífeyri þannig að iðgjald til sjóðsins þyrfti að vera hærra en til annarra sjóða.

Vandi lífeyrissjóðanna sem þegar er orðinn umtalsverður er sá að þeir veita allir sem einn, með einni eða tveimur undantekningum, lífeyri óháðan aldri. Þ.e. réttindavinnslan er óháð aldri. Tvítugur maður ætti í reynd að fá þrefalt meiri réttindi en sextugur maður fyrir sama iðgjald. Þess í stað fá þeir báðir sömu réttindi sem veldur því að sjóðir með mikið af eldri sjóðfélögum, sem fá fólk inn kannski upp úr fertugu eða voru með aldraða sjóðfélaga þegar lífeyrissjóðakerfið var sett á laggirnar, standa alltaf illa. Sjóðir þar sem mikið er af ungu fólki eins og Lífeyrissjóður verslunarmanna og Söfnunarlífeyrissjóðurinn standa alltaf vel, bara af þeirri ástæðu einni sér.

Þennan vanda hafa menn ekki leyst. Hann mun koma upp á borðið á næstu árum í síauknum mæli þegar skerða þarf lífeyri úr sjóðunum. Vandi Lífeyrissjóðs sjómanna er einmitt af þessum toga. Hugleiði menn að láta ríkisvaldið greiða inn í þennan sjóð til að laga stöðuna hans þá hljóta menn að gera kröfu til þess að allir aðrir sjóðir, sem lenda í vandræðum út af lélegri aldurssamsetningu, verði einnig bættir af hinu opinbera. Spurning er hvort peningar finnist í svo mikil útgjöld fyrir ríkissjóð, enda eru þau umtalsverð.

Herra forseti. Í brtt. hv. efh.- og viðskn., sem ég stend að að öðru leyti, er eitt ákvæði sem ég er sérstaklega ánægður með. Það er sólarlagsákvæði um að lögin um sjóðinn skuli ákveðinn dag falla úr gildi og hann falla undir þau lög sem Alþingi er nýbúið að setja um lífeyrissjóði almennt. Þá verður ekki lengur á borði hjá Alþingi að taka afstöðu til Lífeyrissjóðs sjómanna, frekar en annarra sjóða. Þá eru ekki nema tveir sjóðir eftir sem starfa samkvæmt lögum og njóta ekki ábyrgðar ríkissjóðs, þ.e. Lífeyrissjóður bænda og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Ég mundi vilja sjá þá báða rekna án sérstakrar lagasetningar, þ.e. aðeins undir þeim lögum sem ég gat um áðan. Sú tillaga hefur ekki náð fram að ganga en ég geri ráð fyrir svo verði seinna.