Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 13:38:22 (4383)

1999-03-06 13:38:22# 123. lþ. 79.16 fundur 184. mál: #A evrópskt samstarfsráð í fyrirtækjum# frv. 61/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við erum með í höndum dæmigert frv. frá Evrópusambandinu um upplýsingaskyldu við starfsmenn. Mér sýnist að þetta sé tómt mengi hér á landi, þ.e. ekkert innlent fyrirtæki sé til sem falli undir þessi lög og þau erlendu fyrirtæki sem hér starfa falla undir þetta heiman frá sér. Því má segja að þetta sé tómt mengi og skipti þá ekki stóru máli.

Auk þess er það þannig í dag að fyrirtæki líta almennt á starfsmenn sem eina mikilvægustu eign sína og það sé mjög mikilvægt að hafa gott samráð og samskipti við starfsmenn og veita þeim góðar og miklar upplýsingar um starfsemina. Ég get ekki ímyndað mér eitt einasta framsækið, nútímastórfyrirtæki sem mundi ekki uppfylla skilyrði þessara laga af sjálfu sér og jafnvel ganga lengra og flest mundu ganga miklu lengra. Þetta frv. er dæmigert frá Evrópusambandi þar sem er verið að setja alls konar sjálfsagða hluti í lög og reglur og þvinga þar með atvinnulífið til að gera alls konar hluti sem það vill hugsanlega gera öðruvísi og betur. Því má segja að þetta frv. sé óþarft.

En þar sem það er tómt mengi ætla ég ekki að tala mikið meira um það.