Alþjóðleg viðskiptafélög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 13:59:39 (4388)

1999-03-06 13:59:39# 123. lþ. 79.13 fundur 414. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# frv. 31/1999, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um alþjóðleg viðskiptafélög.

Ég skipa minni hluta nefndarinnar í þessu máli og afstaða mín er sú að þetta mál sé ekki tækt til afgreiðslu hér að svo stöddu og það beri að vísa því frá eða vísa því til ríkisstjórnarinnar.

[14:00]

Ýmislegt veldur því að ég tek þessa afstöðu, herra forseti. Bæði er það andstaða við málið en einnig hitt að ýmis álitamál eru að mínu mati óútkljáð og óskoðuð að kalla má. Að vísu liggur nokkurt nefndarstarf að baki samningu frv. Það er góðra gjalda vert. Hitt verð ég að segja að virðulegt Alþingi hefur haft fremur skamman tíma til að skoða málið. Hið sama gildir einnig um hv. efh.- og viðskn. þó að hún hafi á lokasprettinum farið yfir málið og kallað til viðtals við sig nokkra aðila út af því. Engu að síður er mat mitt það, herra forseti, að þarna séu álitamál sem þyrftu miklu betri skoðunar við. Auk þess þurfa menn, eins og áður sagði, að gera upp við sig hvort þetta er pólitísk breyting á löggjöf okkar sem menn vilja yfir höfuð standa að.

Herra forseti. Málið gengur út á það í hnotskurn að heimila hér starfrækslu svonefndra alþjóðlegra viðskiptafélaga. Þetta eru félög sem alfarið starfa á alþjóðamarkaði, utan Íslands og utan hins Evrópska efnahagssvæðis, þ.e. með vörur sem ekki eru upprunnar á því svæði eða seldar inn á það svæði. Hér yrði því einhvers konar aðsetur slíkra alþjóðlegra félaga með starfsemi utan landsteinanna og nytu jafnframt sérstakra vildarskattakjara, samanber fskj. sem fylgir þessu frv. og fjallar um skattamál alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Herra forseti. Ég hef miklar efasemdir um það hvort halda eigi út á þessa braut. Satt best að segja held ég að við séum að kljást við drauga úr fortíðinni, hugmyndir sem lengi hafa blundað með mönnum um að gera Ísland að Karíbahafseyju eða Miðjarðarhafseyju þar sem ævintýramenn í alþjóðaviðskiptum geti átt sér athvarf og notið nánast skattfrelsis, enda nota menn stundum máli sínu til stuðnings dæmi úr þeirri átt.

Nú er það auðvitað ljóst að í einhverjum mæli hafa einstök lönd eða svæði innan landa gert út á þessa hluti. Það á t.d. við um Ermasundseyjarnar og þessi frægu Karíbahafsdæmi. Ég hélt satt best að segja að þeir sem réðu fyrir viðskiptamálum þjóðarinnar hefðu meiri metnað fyrir Íslands hönd en að það yrði sérstakt keppikefli að eltast við þessa hluti. Menn mega alls ekki rugla saman því tvennu, herra forseti, að bjóða íslenskum fyrirtækjum og fyrirtækjum starfandi á Íslandi upp á góð starfsskilyrði og hins vegar samkeppni á þessum uppboðs- eða tilboðsmarkaði. Þar er reynt að lokka til sín alþjóðleg umsvif, fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki af öðrum toga, með því að bjóða þeim sérstök vildarkjör eða skattleysi í staðinn.

Herra forseti. Að mörgu er að hyggja þegar tekin er ákvörðun um hvort Ísland eigi nú seint og um síðir að halda út á þessa braut. Við höfum ekki verið athvarf slíkra fyrirtækja og hefur þó vegnað bærilega.

Herra forseti. Það fyrsta sem ég nefni til sögunnar er að skoða þyrfti samhengi slíkrar ákvörðunar við íslenska skattalöggjöf að öðru leyti. Það er flausturslegt að fara ekki vandlega yfir, áður en löggjöf er sett um þetta efni, í hvaða samhengi þau starfskjör og skattakjör eru sem alþjóðaviðskiptafélög njóta hér við íslenska skattalöggjöf að öðru leyti. Þar koma strax upp hlutir eins og samskipti Íslands við önnur ríki á þessu sviði, þá einkum svonefndnir tvísköttunarsamningar sem við höfum gert. Í slíkum samskiptum, þar sem reynt er að samræma skattareglur og starfskjör milli landa, eru undanþágur og vildarkjör sem hugmyndin um alþjóðleg viðskiptafélög byggir á, mjög litin hornauga.

Þar af leiðandi er það ekki af tilviljun, herra forseti, að athugasemdir sem efh.- og viðskn. bárust komu ekki síst úr þeirri átt, þ.e. frá þeim sem undanfarin ár hafa unnið að því að gera tvísköttunarsamninga fyrir hönd Íslands við önnur ríki og sjá um framkvæmd þeirra. Ég vísa þar sérstaklega, herra forseti, í umsögn ríkisskattsjóra sem fylgir með nál. þessu.

Herra forseti. Um leið og við tækjum upp sérkjör fyrir alþjóðleg viðskiptafélög í skattalegu tilliti kynni að vera ástæða til að gera breytingar á íslensku skattalöggjöfinni að öðru leyti. Þar er t.d. talað um svonefnda CFC-skatta eða samstæðuskattlagningu, ef svo má að orði komast. Ég veit ekki hvort það er rétt íslenskun á þessu hugtaki en ég leyfi mér að nota það. Í því felst að með ákveðnum aðferðum er komið í veg fyrir að óeðlilegt skattalegt undanskot eða flutningur á hagnaði geti átt sér stað í gegnum samskipti innlendra móðurfyrirtækja og erlendra dótturfyrirtækja. Við þessu er gjarnan séð með samstæðuskattlagningarreglum af því tagi og þegar upp er staðið og uppgjör hefur farið fram þá er eðlilegri skattlagningu samstæðunnar náð í gegnum sérreglur sem gilda á skattlagningu hins innlenda móðurfélags. Þar er tillit tekið til skattalegra kjara sem dótturfélög erlendis búa við.

Herra forseti. Þetta er annað atriðið sem snýr að samhengi breytinganna við skattalöggjöfina. Það þriðja er ósköp einfaldlega það, það liggur fyrir í umsögn frá ríkisskattstjóra og kom fram í samtölum við efh.- og viðskn., að skattyfirvöld á Íslandi telja sig illa undir það búin að takast á við að framkvæma þessa lagasetningu, ef af verður. Þau telja sig illa undir það búin að taka á þeim málum sem komið gætu upp í tengslum við starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga á grundvelli þessara laga, verði þau sett. Þar með læt ég lokið umfjöllun mína um samhengi við skattamál.

Herra forseti. Í öðru lagi er rétt að hafa í huga að við erum ekki ein í heiminum í þessu tilliti frekar en öðru. Hér finnst mér allt í einu skjóta upp kollinum --- einhverjir mundu sjálfsagt segja og það úr óvæntri átt --- viss einangrunarhyggja eða tilhneiging til að gleyma sér í séríslenskum veruleika, þ.e. þessar hugmyndir um að Ísland verði lágskattaparadís alþjóðafyrirtækja eða alþjóðlegra viðskiptafélaga. Á bak við þetta er hugmyndin um að við getum bara ein verið sniðug og lokkað til okkar viðskipti á þessu sviði án þess að það komi nokkurs staðar annars staðar við.

Herra forseti. Staðreyndin er sú að á alþjóðavettvangi er í gangi viðleitni til að útrýma þessum holum í hinu alþjóðlega skattasamhengi. Markvissar aðgerðir eru í gangi á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar og víðar. Þær miða að því að uppræta þessi lágskattasvæði, þessar holur, og reyna að tryggja að samkeppni milli ríkja um staðsetningu fyrirtækja og uppbyggingu í atvinnulífi sem byggi ekki á undirboðum hvað skatta eða starfskjör varðar öðru leyti. Þar er í aðalatriðum gert ráð fyrir samkeppni á jafnræðisgrundvelli, samkeppnin kemur þar fram í öðru en þessu.

Herra forseti. Ástæðan er sú að það hefur margar neikvæðar hliðarverkanir ef ríkin hneigjast til að lokka til sín starfsemi af þessum toga með undirboðum í skattakjörum. Eftir sem áður þurfa viðkomandi ríki að afla sér tekna. Eftir sem áður þarf að mæta þeim kostnaði sem fylgir tilkomu slíkra fyrirtækja. Sú tilhneiging er augljós að afla skattanna eða teknanna með álögum á einhverja aðra. Niðurstaðan hefur orðið sú að þar sem farið hefur verið offari í að fella niður tekju- eða veltuskatta á atvinnulífið þá hefur skattbyrðin á launatekjum eða neysluskattar aukist að sama skapi. Tilhneigingin er sú að velta skattbyrðinni annað, gefi menn sér að tiltekinna tekna þurfi að afla eftir sem áður.

Þetta t.d. benda Samtök iðnaðarins á og vara við þeirri hættu að vildarkjör af þessu tagi gagnvart tilteknum aðilum hafi þetta samhengi í för með sér.

Herra forseti. Með þessu er ég að segja að á því herrans ári 1999 séum við að gera breytingar á okkar löggjöf og okkar skattareglum sem gangi gegn alþjóðlegri viðleitni. Þar af leiðandi held ég að þetta mál sé svona 30 árum of seint á ferðinni. Mér er stórlega til efs að af þessu verði mikil uppskera þegar upp verður staðið.

Segjum sem svo að á næstu þremur til fimm árum nái menn verulegum árangri í að uppræta þessi undirboð og lágskattaparadísir og loka þeim. Segjum t.d. að Evrópusambandið eða Efnahags- og framfarastofnunin nái því fram og það verði jafnvel tekið inn í bindandi samninga milli ríkja. Þá væri augljóslega tímaskekkja að standa í því brölti hér að lokka fyrirtæki að á þessum grunni.

Herra forseti. Í þriðja lagi, í nál. minni hlutans, nefni ég að ekki verði horft fram hjá þeim möguleika að á Ísland falli neikvætt kastljós þegar fréttir fara að berast af því að nú sé Ísland að gera breytingar á löggjöf sinni til þess að reyna að lokka til sín fyrirtæki, frá einhverjum öðrum að sjálfsögðu, með gylliboðum og skattalegum vildarkjörum. Ég held að menn noti það ekki til að auglýsa sig út á við og stæra sig af.

Ég held a.m.k. að ef menn ætla að fara út í eitthvað slíkt þá veitti ekki af að gera þær breytingar með góðum fyrirvara og reyna að kynna þær með jákvæðum formerkjum áður en til lagasetningar kæmi. Á það er bent, m.a. í umsögn ríkisskattstjóra, að það kunni að vera álitamál hvort t.d. sumir tvísköttunarsamningarnir haldi ef Ísland gerir einhliða slíkar breytingar á löggjöf. Þar eru m.a. lagðar mjög ríkar skyldur á báða aðila að virða jafnræðisreglurnar í skattlagningu, að annar lokki ekki til sín viðskipti frá hinum o.s.frv. Í þessum efnum gilda því góðar reglur í báðar áttir.

Mér finnst, herra forseti, menn fara billega í gegnum málið án þess að gera með athugasemdir af því tagi sem lesa má út úr umsögn ríkisskattstjóra, sem fram komu á fundi ríkisskattstjóra með efh.- og viðskn. og einnig sérfróðum aðilum, t.d. úr iðn.- og viðskrn. og aðila sem þekkti vel til þessara mála hjá Eftirlitsstofnun Evrópu.

Þá kem ég að því fjórða, herra forseti. Það er möguleg tenging þessa við alþjóðlegar samningsskuldbindingar okkar, ekki bara tvísköttunarsamninga sem ég hef áður nefnt, heldur einnig EES-samninginn og tengingu okkar við Evrópusambandið. Það er alls ekki hægt að útiloka að til árekstra eða klögumála gæti komið á gráum svæðum sem varða samkeppnis- og jafnræðisreglur, t.d. tengdum efnahags- og viðskiptalegum ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og fjórfrelsið í ESB. Klögumálunum fyrir Eftirlitsstofnun Evrópu gæti sem sagt heldur fjölgað en fækkað, herra forseti, ef farið verður út í einhliða breytingar af þessu tagi.

[14:15]

Í fimmta lagi er þarna bent á að huga þurfi að alþjóðlegum samningsskuldbindingum Íslendinga á sviði hugverkaréttinda og í því sambandi vitnað í umsögn Einkaleyfastofunnar. Þar er sömuleiðis um ýmiss konar alþjóðlegar skuldbindingar að ræða og að því þarf að hyggja hvort breytingar af þessu tagi geti í einhverjum tilvikum verið á skjön við slíkt.

Herra forseti. Loks vil ég nefna í þessu sambandi að enginn vafi leikur á því í mínum huga að sá mikli munur, sá gríðarlegi munur, sem verður á skattgreiðslum alþjóðlegra viðskiptafélaga hér á landi samkvæmt frv. og tengdu frv. um skattamál og skattgreiðslum innlendra fyrirtækja, er líklegur til þess að valda óánægju og þrýstingi á að skattar hinna innlendu fyrirtækja verði lækkaðir enn frekar en orðið er. Af þessu geta væntanlega, herra forseti, leitt í framhaldinu illdeilur og klögumál. Það verður auðvitað alveg himinhrópandi munur á þessu annars vegar og svo 30% tekjuskattsgreiðslum, tryggingagjaldsgreiðslum og öðrum gjöldum innlendra fyrirtækja, og eru þau þó svo sem ekki tiltakanlega há því að staðreyndin er sú að Ísland er í hópi lágskattaríkja þegar kemur að skattlagningu á atvinnulífið. Hvað sem hver segir þá eru það nú óhrekjandi staðreyndir. Við erum í hópi þeirra ríkja sem eru með lægstu tekjuskattsprósentuna á hagnað fyrirtækja. Við erum með umtalsverðar frádráttarheimildir vegna rekstrartapa, fyrninga og fleiri hluta og við erum með tiltölulega mjög lágan launatengdan kostnað atvinnulífsins. Eftir sem áður verður þarna alveg himinn og haf á milli þeirra skattgreiðslna sem innlend fyrirtæki greiða nú og þeirra vildarkjara sem alþjóðlegum viðskiptafélögum eru ætluð.

Herra forseti. Með þessum rökstuðningi tel ég að óhjákvæmilegt sé annað en að skoða þetta mál mun betur. Ég útiloka alls ekki, herra forseti, að eitthvert fyrirkomulag af því tagi sem þessi frumvörp fela í sér geti ekki komið til greina. Það gerir það vissulega. Það má alveg hugsa sér að við búum alþjóðlegum fyrirtækjum sem hér væru staðsett að einhverju leyti sérstök kjör. Ég ætla ekki að útiloka að þetta fyrirkomulag komi til með að nýtast einhverjum innlendum aðilum sem vilja tengja við landið alþjóðleg umsvif í fjarlægum heimsálfum, t.d. á sviði sjávarútvegs.

En ég spyr á móti: Hefur það nokkuð verið skoðað hvort aðrar skattalegar ráðstafanir en þær að opna fyrir slík alþjóðleg viðskiptafélög á vildarkjörum kæmu að sömu notum í þeim efnum? Það hafa ekki verið lögð á mitt borð, herra forseti, og ekki svo ég viti á borð efh.- og viðskn. nein bein dæmi um nokkurt óhagræði sem stendur í vegi fyrir því t.d. að íslensk fyrirtæki færi slíka starfsemi hingað heim. Ef þetta snýst um að þau geti flutt heim arð á eðlilegan hátt vegna starfsemi erlendis þá er sjálfsagt að líta á það mál. Ég hélt satt best að segja að við hefðum verið að gera breytingar sem voru ætlaðar einmitt til þess að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að koma arðgreiðslum milli fyrirtækja innan sömu samsteypu. Og út á það gengu m.a. breytingar hér á fyrra ári vegna breyttrar skattlagningar á arðgreiðslum.

Ef menn hafa dæmi um slíkt þá er alveg sjálfsagt mál að líta á það. En einhver óljós skírskotun eða tilvísun í þá átt er mér ekki nægjanleg rök til þess að segja: Heyrðu, við verðum að búa hérna til lágskattaparadís fyrir alþjóðleg viðskiptafélög, af því að því fylgja líka ýmsir ókostir og það orkar tvímælis að ýmsu leyti, eins og ég þykist hafa farið yfir hér.

Að mínu mati er allt of mörgum spurningum ósvarað til þess að réttlætanlegt sé að ákveða að halda út á þessa braut með almennri lagasetningu um vildarkjör fyrir alþjóðleg viðskiptafélög. Ég tel reyndar, herra forseti, verulegt álitamál hvort við séum yfir höfuð á skynsamlegri braut í þessum efnum, sérstaklega í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi. Einhverjir verða að vera talsmenn þess hér að við Íslendingar fylgjumst með því sem er að gerast í umheiminum og það virðist hafa orðið mitt hlutskipti í þessu tilviki a.m.k. Ég held að því verði ekki á móti mælt --- nú ef það verður gert þá verður fróðlegt að heyra það hér --- að þetta t.d. gengur gegn þeirri viðleitni sem nú er í gangi innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Vill hv. formaður hv. efh.- og viðskn. koma hér upp og mótmæla því að svo sé? Ég hygg ekki.

Herra forseti. Að lokum finnst mér rétt að hafa það í huga að þetta mál er einnig angi af og tengist enn þá stærri málum, þ.e. spurningunum um það hvert hið alþjóðlega hnattræna fjármagnskerfi sé að stefna. Hvert er það að fara? Hvernig standa málin þar? Sú umræða hefur merkilega lítið borist til Íslands, kannski af því að við höfum að mestu leyti verið ósnortin af þeim miklu hræringum sem hafa skekið hinn alþjóðlega fjármagnsheim á undanförnum mánuðum og missirum. En hið litla og tiltölulega lokaða íslenska hagkerfi, sem það enn er sem betur fer, hefur að mestu leyti sloppið við þessar hræringar af því að við erum ekki jafnalgjörlega orðin ofurseld Dow Jones vísitölunni eða öðrum slíkum mælikvörðum og sumir aðirir eru. Ef svo væri þá spái ég því að umræðan um þessi mál væri meiri hér uppi á Íslandi nú en raun ber vitni. Hún er merkilega lítil.

Staðreyndin er sú að núna eru mjög miklar efasemdir uppi meðal fræðimanna á þessu sviði, meðal hagfræðinga og viðskiptafræðinga úti um allan heim og þarf ekki bara Asíulöndin til. Það þarf ekki bara Suður-Ameríku og Austur-Evrópu til. Það er ekki síður meðal þeirra sem eru í forustu fyrir þessum málum á Vesturlöndum að áhyggjurnar koma í ljós. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, og er ekki í vafa um að það verður að gera verulegar breytingar og setja umtalsverðar skorður við hinu spekúlatífa, alþjóðlega eða hnattræna fjármagni sem æðir um heiminn og er á höttum eftir skyndigróða og ofsagróða af fullkomnu miskunnarleysi gagnvart efnahagslegum stöðugleika og efnahagslegri velferð einstakra þjóðríkja, eins og dæmin sanna.

Ég hélt satt best að segja að menn viðurkenndu hvernig farið hefur fyrir ýmsum býsna sterkum hagkerfum sem hafa orðið fórnarlömb þessa kerfis spákaupmennskunnar og það með hversu harðsvíruðum hætti þetta er rekið áfram og að það væri ástæða til fyrir okkur Íslendinga frekar en hitt að ganga hægt um gleðinnar dyr í þessum efnum. Þó ekki kæmi annað til en umhverfismálin, herra forseti, sem auðvitað kalla á að menn endurmeti þessa hluti eins og allt annað í þessum efnum, þá væru þau ein og sér næg ástæða til þess fyrir mér að spyrna hérna við fæti.

Af hverju er ég að taka þetta upp, herra forseti, í samhengi við umræður um það hvort Ísland eigi með löggjöf að opna fyrir sérstök vildarkjör handa alþjóðlegum viðskiptafélögum? Jú, það er vegna þess að þetta er hluti af þessu kerfi. Þetta er hluti af þessari hugsun að allur heimurinn eigi að vera eitt allsherjar skákborð fyrir hið alþjóðlega fjármagn sem eigi að geta flætt fram og til baka um heiminn eða öllu heldur þotið fram og til baka um heiminn því nú eru þessir flutningar rafvæddir og gerast á örskotsstund. Milljarðarnir flæða fram og til baka þannig að enginn festir á því hönd eða auga. Afleiðingarnar eru þær að þetta er meira og minna orðin stjórnlaus ófreskja. Öflugustu spekúlantarnir, öflugustu braskararnir og spákaupmennirnir hafa trekk í trekk leikið það að brjóta niður efnahagslegan stöðugleika í öflugum hagkerfum, fella gengi sterkra gjaldmiðla og valda ýmsum öðrum búsifjum sem menn hafa síðan þurft mörg ár til að jafna sig af.

Herra forseti. Ég er lítt hrifinn, svo það sé alveg hreinu, af því að við verðum með síðustu skipum inn í þetta kerfi. Þó að skráning slíkra alþjóðlegra viðskiptafélaga hér ein og sér verði kannski ekki mikið framlag til heimsviðskiptanna á þessum sviðum þá er það samt angi af þessu og ég tel að við eigum að móta okkur einhverja almenna stefnu í þessum efnum áður en við höldum út á þessa braut.

Herra forseti. Margt bendir til þess að hvort sem mönnum verður það ljúft eða leitt þá neyðist þeir fljótlega á næstu öld til þess að setja þessari ófreskju einhverjar skoður, koma einhverjum böndum á hana, af því að það verður minna og minna við þetta ráðið í hinum rafvæddu, tölvuvæddu viðskiptum nútímans þar sem tölvur taka ákvarðanir í viðskiptum sem valda hundraða milljarða fjárflutningum frá einu landi til annars, þar sem tölvur ákveða kaup og sölu á verðbréfum og hlutabréfum o.s.frv. samkvæmt innbyggðum skipunum í forritum. Hraði þessara viðskipta er orðinn slíkur að breytingar sem menn höfðu áður nokkra daga eða vikur til þess að átta sig á og grípa til gagnráðstafana gegn, gerast núna á örfáum klukkutímum eða hálfum eða einum sólarhring. Með samtengingu verðbréfamarkaðanna hringinn í kringum hnöttinn geta menn haldið viðskiptunum gangandi sólarhringunum saman. Það kemur ekkert hlé eins og áður var og verðhækkanir eða verðlækkanir og kveisur sem þessir markaðir taka breiðast með örskotshraða hringinn í kringum hnöttinn.

Ég held að þetta kerfi sé stórhættulegt og vitlaust og þjóni eingöngu hagsmunum þeirra sem fjármagnið eiga og fyrst og fremst þeirra sem eru á höttum eftir skjótfengnum gróða án nokkurra skuldbindinga, kvaða eða tengsla við einstök ríki, atvinnuhagsmuni eða efnahagshagsmuni í einstökum löndum. Meira og meira af þessu fé er komið í hendurnar á svokölluðum lötum fjármagnseigendum, þ.e. fjármagnseigendum sem hvorki bera ábyrgð gagnvart hagsmunum einstakra fyrirtækja né framleiðslustarfsemi af einum eða neinum toga heldur er þetta fjármagn sem fyrst og fremst er að ávaxta sig sjálft. Það kallar hv. þm. Pétur Blöndal fé án hirðis og hefur auðvitað ýmislegt til síns máls þegar hann ræðir þá hluti, að þetta gráðuga fjármagn án hirðis er víða á ferðinni í heiminum.

Það væri fróðlegt fyrir menn að kynna sér breytingar sem orðið hafa í kauphöllunum, segjum í Stokkhólmi þar sem yfirgnæfandi meiri hluti hlutafjárins var fyrri hluta aldarinnar í eigu sænskra atvinnurekenda og sænskra framleiðenda vöru eða þeirra sem voru að selja þjónustu. Þetta var eignarhald sem hafði byggst upp í gegnum atvinnurekstur í fjölskyldufyrirtækjum eða hlutafélögum og var nátengt þeirri framleiðslustarfsemi sem í hlut átti, hvort sem það var Saab, Scania, SKF eða hvað það nú var.

En hvernig halda menn að ástandið sé í dag? Nú eru ekki nema svona 15--20% í sænsku kauphöllinni í Stokkhólmi í eigu slíkra sænskra atvinnurekenda eða sænskra framleiðslufyrirtækja. Hver á restina? Jú, það er annars vegar Wallenberg familían með sínum fjárfestingarfélögum. En afgangurinn er svona latt fjármagn. Afgangurinn er fjármagn sem er þarna á ávöxtun og hefur engar skuldbindingar og engin tengsl við sænskan iðnað, sænska atvinnuhagsmuni eða sænskt efnahagslíf. Þetta er fjármagn sem kemur og fer eftir því hvar kaupin gerast best á eyrinni og er á höttum eftir skjótfengnum gróða og ávöxtun af fullkomnu tillitsleysi og miskunnarleysi við hagsmuni viðkomandi þjóðríkis í öllu tilliti. Í þessa átt eru hlutirnir að þróast. Og það getur ekki og mun ekki, herra forseti, enda öðruvísi en með ósköpum ef sú ófreskja fær að ganga áfram laus í heiminum.

Þarna þarf að setja skýrar skorður við. Það er nauðsynlegt vegna efnahagslegs stöðugleika. Það er nauðsynlegt vegna velferðar og hagsmuna þjóðríkjanna og það er síðast en ekki síst auðvitað algjörlega nauðsynlegt vegna umhverfishagsmuna heimsins. Vegna þess að þetta er hættulegasti aðilinn í því tilliti. Þetta er sá aðili sem einskis svífst og gefur skít í umhverfið og náttúruna þegar svo ber undir. Enda ræður þarna aðeins eitt boðorð ríkjum, það er gróði, það er ávöxtun, þ.e. eins skjótfenginn og mikill gróði og kostur er.

[14:30]

Herra forseti. Mönnum finnast slíkar hugleiðingar kannski eiga lítt við hér á þessum laugardagseftirmiðdegi þegar alla langar heim til þess að gera eitthvað annað. En staðreyndin er sú að þetta eru alvörumál sem menn þurfa einhvern tíma að gefa sér tíma til að ræða. Ég held að við ættum kannski einstöku sinnum á Alþingi Íslendinga að rífa okkur upp úr hversdagsleikanum, líta aðeins upp frá naflanum á okkur og velta fyrir okkur stærra samhengi hlutanna. Hvert erum við að okkar litla leyti að stefna málunum og í hvaða samhengi erum við að því? Þrátt fyrir allt erum við ekki ein í heiminum og okkur varðar miklu hvernig málin þróast og við eigum líka að hafa skoðun á því hvernig þau eru að þróast og hvernig við viljum sjá bæði okkar stöðu í því samhengi og stöðuna almennt.

Herra forseti. Ég hef ekki nokkra sannfæringu fyrir því að þessi lagasetning um alþjóðleg viðskiptafélög sé nokkurt sérstakt framfaraspor eða stórt hagsmunamál í þessum efnum. Mjög mörgum spurningum er ósvarað í þessu sambandi. Ég get þar af leiðandi ekki stutt þetta mál og legg til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Mér er að vísu ljóst að hún blessunin, þ.e. hæstv. ríkisstjórnin, hefur skamman tíma til stefnu til að gera mikið í málinu þó hún fengi það til sín. En það kemur þá til kasta þeirrar sem við tekur og ég treysti því að hún yrði ekki síður vel til þess fær að meta málin, skoða þau og leiða þau í farsælan farveg.

Herra forseti. Mér finnst þetta of illa undirbúin lagasetning til að réttlætanlegt sé að verja hana, jafnvel burt séð frá pólitískum ágreiningi sem um hana er.