Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 14:36:51 (4390)

1999-03-06 14:36:51# 123. lþ. 79.20 fundur 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Frsm. sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en í því frv. er mælt fyrir um breytingar á grásleppuveiðum.

Nál. er frá sjútvn. og er að finna á þskj. 1003.

Nefndin fékk til fundar við sig um þetta mál 42 menn frá 18 aðilum, aðstoðarmann sjútvrh., fulltrúa frá sjútvrn. og fulltrúa sérfræðinganefndar ríkisstjórnarinnar sem skipuð var í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 3. des. Þá komu aðilar frá Sjómannasambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Þróunarsjóði sjávarútvegsins, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Landssamtökum útgerðarmanna kvótalítilla skipa, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Fiskistofu, Landssambandi smábátaeigenda. Prófessor við Háskóla Íslands kom og fulltrúar frá umhvrn., Vélstjórafélagi Íslands, svæðisfélaginu Kletti á Norðurlandi eystra, Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun.

Umsagnir um málið bárust frá 14 aðilum: Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Strandveiðifélaginu Króki, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vinnumálasambandinu, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssamtökum útgerðarmanna kvótalítilla skipa, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hafrannsóknastofnun, ASÍ og Landssambandi smábátaeigenda.

Í nál. sjútvn. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í dómi Hæstaréttar 3. desember sl. í máli nr. 145/1998: Valdimar Jóhannesson gegn íslenska ríkinu var dæmd ógild sú ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins 10. desember 1996 að hafna umsókn Valdimars um almennt og sérstakt veiðileyfi. Kemur fram í forsendum dómsins að ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi skv. 1. mgr. 75. gr. hennar að því leyti sem leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands séu til frambúðar bundin við skip sem haldið var til veiða á ákveðnum tíma. Í kjölfar dómsins voru samþykkt lög nr. 1/1999 til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990. Samhliða frumvarpi sem varð að lögum nr. 1/1999 var lagt fram það frumvarp sem er hér til meðferðar um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem talið var að gera þyrfti sams konar breytingu á leyfi til grásleppuveiða og almennum veiðileyfum á grundvelli laga nr. 38/1990.

Eftir nánari skoðun á frumvarpi því sem liggur hér fyrir, meðal annars með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 3. desember 1998 í máli nr. 145/1998, er það mat nefndarinnar að ekki þurfi að hrófla við ákvæðum laga um grásleppuveiðar. Leyfi til veiða á grásleppu eru annars eðlis en leyfi til veiða í atvinnuskyni eins og þau voru samkvæmt ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990 fyrir breytingarnar sem gerðar voru með lögum nr. 1/1999. Leyfi skv. 5. gr. snerist um takmörkun á rétti til veiða jafnt úr stofnum sem talið er nauðsynlegt að stjórna veiðum úr og stofnum sem talið er óhætt að stunda frjálsa sókn í. Leyfi til grásleppuveiða skv. 7. gr. laga nr. 79/1997 taka eingöngu til veiða á tilteknum fiskstofni og með þeim og tengdum aðgerðum hefur sóknin verið takmörkuð í verndarskyni. Ljóst þykir að kvótakerfi á grásleppuveiðum yrði mjög erfitt í framkvæmd og kemur þar til stutt veiðitímabil og að grásleppugöngur eru mjög mismunandi frá ári til árs á einstökum svæðum. Þá er erfitt að stjórna netaveiðum með dagatakmörkunum. Sjávarútvegsnefnd telur því vænlegast að stjórna veiðunum eins og gert hefur verið, með tilteknum fjölda veiðileyfa, afmörkuðu veiðitímabili, hámarksfjölda neta o.s.frv.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.``

Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Kristinn H. Gunnarsson, Árni R. Árnason, Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Vilhjálmur Egilsson, Guðmundur Hallvarðsson, Stefán Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson rituðu undir nál.