Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 16:22:41 (4402)

1999-03-06 16:22:41# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Frsm. meiri hluta TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu alveg hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að ekki þurfi að draga sérstaklega fram þann ágreining sem er innan Samfylkingarinnar um þessi mál, hann liggur fyrir. Það er hins vegar erfitt fyrir Samfylkinguna að geta ekki svarað skýrt miklum málum eins og þessum. Að sjálfsögðu gefur það flokknum mikið svigrúm til stjórnarmyndunar að hafa enga stefnu í þessum málum nema til fjögurra ára, sem er skammtímastefna. Hann hefur engin langtímasjónarmið í öryggismálum og það er staðreynd sem hann verður að lifa við.

Sjálfstfl. hefur markað sér skýra stefnu í öryggis- og varnarmálum og hefur alltaf haft. Ég get fullyrt það við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að innan Sjálfstfl. óska engir eftir því að ganga úr Atlantshafsbandalaginu. Það er erfiðara fyrir þann sem hér stendur að rýna í hjörtu og nýru framsóknarmanna. Þeir verða að svara því sjálfir hvaða afstöðu þeir hafa til þess máls. Það er ekki við mig að sakast þó þeir séu ekki í umræðunni. Því verða þeir sjálfir að svara en ég efast um þá söguskýringu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að þeir skammist sín fyrir að vera við þessa umræðu.

Það er sjálfsagt að vitna í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Ræðan vekur upp spurningar. Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði skýrt það hér. Ég ræð ekki við það að hv. þm. skuli ekki vera hér en að sjálfsögðu, eins og ég tók skýrt fram í máli mínu, getur hún leiðrétt orð sín hvenær sem er.