Skaðabótalög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 10:48:15 (4411)

1999-03-08 10:48:15# 123. lþ. 80.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[10:48]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar á heildina er litið er hér á ferðinni frv. sem er til mikilla bóta og felur í sér réttarbætur fyrir fjölda fólks að mati minni hluta allshn. Á frv. eru hins vegar alvarlegir gallar. Í fyrsta lagi er viðmiðunargólf fyrir láglaunafólk of lágt þó að það sé vissulega til bóta að slík lágmarksviðmiðun skuli vera sett en það er framför frá því sem nú er.

Í öðru lagi er algerlega óásættanlegt að greiðslur úr lífeyris- og sjúkrasjóðum skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu til tryggingafélaga og er þannig gengið á réttindi launafólks en greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum eru eign launafólks.

Þá viljum við tryggja betur með lagabókstaf réttindi þeirra sem verða fyrir kynferðislegu áreiti. Í samræmi við þessi sjónarmið og brtt. sem minni hluti allshn. hefur sett fram munum við í minni hlutanum og í þingflokki óháðra greiða atkvæði um þetta frv.