Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 11:24:41 (4416)

1999-03-08 11:24:41# 123. lþ. 80.11 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv. 29/1999, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[11:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er athugasemd sem ég hef eiginlega áður komið á framfæri. Mér finnst röð þessara tveggja dagskrármála, 11. og 12. máls, ekki vera rétt. Staðreyndin er sú að grundvallarlöggjöfin eða aðalfrv. er frv. um alþjóðleg viðskiptafélög. Spurningin er hvort sett verði lög um að heimila starfrækslu slíkra félaga hér á landi. Verði slík lög sett, komi til sögunnar slík alþjóðleg viðskiptafélög, kemur síðan að því að um starfsemi þeirra gildi einhver tiltekin skattaákvæði. Ég hefði því talið eðlilegra að afgreiða 12. málið á undan þar sem hitt frv. er afleitt frv. Mönnum þykir þetta kannski ekki stórmál, en þó er það þannig í mínum huga að heppilegra er að röðin á hlutunum sé þessi.

Nú vill svo til að ég legg til að þessum málum sé báðum vísað til hæstv. ríkisstjórnar. Færi sú atkvæðagreiðsla þannig að í fyrra tilvikinu væri ekki á það fallist en hins vegar í hinu síðara, þá sætu menn uppi með lög um skattareglur fyrir alþjóðleg viðskiptafélög sem hins vegar væru engin lög til um og yrðu ekki þarf af leiðandi á stofn sett. Væri það harla hjákátleg staða. Að því leyti til væri auðvitað heppilegra að afgreiða 12. dagskrármálið á undan 11. dagskrármálinu en langeinfaldast, herra forseti, og um leið skynsamlegast er að vísa báðum þessum málum frá því að þau eru gölluð.

(Forseti (ÓE): Það verður orðið við þessum tilmælum. Þetta er réttmæt athugasemd en það var farið eftir númeraröð við niðurröðun dagskrárinnar. Forseti frestar um stund 11. dagskrármálinu en tekur fyrir 12. dagskrármálið.)