Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 12:51:42 (4432)

1999-03-08 12:51:42# 123. lþ. 80.25 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv. +, SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég lýsti við 2. umr. þessa máls og reyndar einnig að hluta til við 1. umr. viðhorfum mínum til þess og þau birtust einnig í atkvæðagreiðslum eftir 2. umr. þar sem ég studdi sum ákvæði frv. en önnur ekki. Í tengslum við þá umræðu innti ég jafnframt eftir því hvar sú vinna væri á vegi stödd sem hæstv. forsrh. hefur haft forgöngu um að láta vinna í tengslum við þetta mál og lýtur bæði að ýmsum þáttum byggðamála og aðgerðum til jöfnunar á því sviði og einnig að því að bæta starfsaðstæður þingmanna í ljósi hinnar nýju kjördæmaskipunar sem leiða mundi af lögfestingu þessa frv. eða fylgja kosningalagabreytingum sem tengdar eru við þetta stjórnarskrárfrv.

Mér kunnugt um, herra forseti, að sú nefnd sem skipuð var fulltrúum allra flokka undir formennsku hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hefur nú lokið störfum og skilað áliti sínu til forsrh., og ég tel að eðlilegt sé að við fáum upplýsingar um þá vinnu í raun og veru og það hvernig hæstv. forsrh. hyggst taka á málinu í framhaldinu áður en við ljúkum umfjöllun um þetta frv. sem er á dagskrá, frv. til stjórnarskipunarlaga. Ég lít svo á að það sé hluti af hinu pólitíska baklandi, svo maður segi ekki hinni pólitísku samstöðu um málið því að hún er að vísu ekki að öllu leyti fyrir hendi. Um þetta mál er nokkur ágreiningur en hann er þó minni en ella væri, hygg ég, ef ekki kæmi það til að flokkarnir urðu sammála um að skipa fulltrúa í nefnd til að taka á ýmsum þáttum byggðamála og til að fara yfir það sem ég áður nefndi um starfsaðstæður þingmanna og stuðning við þingmannsstarfið, ekki síst þegar hin nýju og stóru kjördæmi samkvæmt kosningalagafrv., sem hér er fskj. með stjórnarskrárbreytingunni, verða orðin að veruleika eða ef það verður að veruleika.

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að við fáum einhverjar upplýsingar um hvernig þessi mál eru á vegi stödd og samhengi þessara hluta. Ég óska eftir því að ef hæstv. forsrh. getur ekki komið til umræðunnar og upplýst okkur um þessi efni verði henni ella frestað. Mér finnst að það sé eðlilegt, áður en við ljúkum efnislegri umfjöllun um þetta mál og umræðu lýkur, að við fáum einhverjar upplýsingar hér um. Þar á meðal hvort og þá hvernig er nauðsynlegt að lögfesta heimildarákvæði, t.d. með sérstöku fjáraukalagafrv. eða öðrum slíkum hætti sem kann að reynast nauðsynlegt til að hægt sé að hefja fyrsta áfanga þessara aðgerða, tengda þessu frv., á yfirstandandi ári. Mér er nær að halda að það sé bráðnauðsynlegt til þess að ýmiss konar undirbúningur geti þá farið af stað að slíkar heimildir yrðu veittar, væntanlega helst áður en Alþingi lýkur störfum á þessu kjörtímabili og þá e.t.v. í allra síðasta lagi að það slyppi ef fyrir lægi pólitísk samstaða um að slíkar heimildir yrðu veittar á vorþingi því sem saman kemur að afloknum væntanlegum alþingiskosningum.

Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég til þess sem ég hef áður sagt um afstöðu mína til frv. Ég hef verulega fyrirvara á um vissa þætti málsins, bæði þá sem eru inni í stjórnarskipunarlögunum en þó ekki síður kannski útfærslu og afmörkun kjördæma í fylgifrv., þ.e. í þeim drögum að frv. til breytinga á lögum um kosningar til Alþingis sem fylgja með sem fskj. I með málinu.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. komist til umræðunnar og geti veitt okkur einhverjar upplýsingar um það sem ég hef hér spurt. Bæði við 1. og 2. umr. málsins lagði ég þunga áherslu á það af minni hálfu að ég vildi að samhengi þessara hluta lægi ljóst fyrir og hvernig þeim stuðningsaðgerðum og því átaki, til að mynda í samgöngumálum, sem við þetta hefur verið tengt reiddi af. Það er bæði efnislega eðlilegt að taka hér til umfjöllunar vegna þess að samgöngurnar hafa vissulega áhrif á aðstæður innan hinna nýju kjördæma en líka sökum þess að það er hluti af hinu pólitíska baklandi sem þetta mál er í samhengi við.