Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:05:55 (4434)

1999-03-08 13:05:55# 123. lþ. 80.25 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv. +, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessar upplýsingar. Ég tel mikilvægt að þær komi fram. Þær skýra stöðu málsins. Hér gaf hæstv. forsrh. þá yfirlýsingu að ríkisstjórnin --- ef allt gengur eftir og ég hef rétt skilið --- mundi veita nauðsynlegar heimildir til að hefja framkvæmd á tillögum byggðanefndarinnar í væntanlegu fjáraukalagafrv. Þar með væri fyrir því séð að lögformlegur undirbúningur að framkvæmd þessara tillagna gæti hafist, þ.e. flýtingu vegaframkvæmda, jöfnun orkuverðs, jöfnun námskostnaðar og fleiri þátta. Ég tel þetta mjög mikilvægt og vona að áður en þingið lýkur störfum hafi hæstv. ríkisstjórn gefist kostur á að kynna sér tillögurnar, taka þær fyrir á formlegum fundi og afgreiða málið. Það mundi þá a.m.k. hafa fengið þá stöðu áður en Alþingi lýkur störfum og við greiðum atkvæði um þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Ég geri alls ekki lítið úr þeim tillögum sem þarna eru á ferðinni. Ég tel að þær marki skref, séu afgerandi viðleitni til að taka á í byggðamálum og viðleitni sem tengist þeim breytingum sem hér eru á dagskrá, þó auðvitað þurfi fleira að koma til. Eftir stendur afstaða manna og afstaða mín þar á meðal, til þessa stjórnarskipunarlagafrv. og þeirra breytinga á kosningafyrirkomulagi sem tengjast því. Ég vísa til þess sem ég hef áður látið koma fram í þeim efnum en þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur veitt.