Jarðalög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:21:15 (4438)

1999-03-08 13:21:15# 123. lþ. 80.26 fundur 547. mál: #A jarðalög# (fulltrúar í jarðanefndir) frv. 54/1999, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tiltölulega lítilli breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, sem fjallar um skipan í jarðanefndir. Þær eru þannig skipaðar að einn fulltrúi í jarðanefndinni er tilnefndur af héraðsnefndum. Nú er það svo að héraðsnefndir hafa hingað til verið eins konar samstarfsvettvangur sveitarfélaga, en við breytingar á skipan sveitarfélaga, fækkun sveitarfélaga og stækkun þeirra, hefur hlutverkum héraðsnefnda sums staðar verið lokið og þær eru ekki alls staðar til og ekki alls staðar starfandi. Það er fyrirsjáanlegt að svo muni verða áfram á næstunni og við þetta hafa skapast nokkur vandamál varðandi starfsemi jarðanefnda á viðkomandi stöðum.

Jarðanefndirnar hafa mörg mikilvæg hlutverk samkvæmt ábúðarlögum og jarðalögum og þess vegna mjög erfitt að slíkar nefndir skuli ekki vera starfandi að fullu skipaðar og eðlilegar samkvæmt lögum.

Því er gerð hér tillaga um að ákvæðum 4. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um að héraðsnefndir tilnefni fulltrúa í jarðanefndir skuli breytt á þann hátt að sýslumenn taki við því hlutverki héraðsnefndanna að tilnefna einn fulltrúa í jarðanefndir og með því móti gætu þær þá verið á ný fullskipaðar á eðlilegan hátt.

Ég held að þetta sé svo skýrt mál, hæstv. forseti, að ekki þurfi að hafa um það mörg orð. Þetta er til komið vegna þessara breytinga sem hafa verið að gerast og nauðsynlegt að fá einhvern annan vettvang til að geta fullskipað þessar nefndir.

Ég legg því til að að umræðunni lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.