Landsvirkjun

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:34:36 (4443)

1999-03-08 13:34:36# 123. lþ. 80.30 fundur 592. mál: #A Landsvirkjun# frv. 50/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:34]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. um þetta mál stend ég sem fulltrúi í iðnn. að þessu frv. Það er flutt til samræmis við sambærilega breytingu á lögum um Rarik. Þetta frv. er reyndar mjög skrýtið eins og sambærileg ákvæði í lögum um Rarik. Hér er löggafarsamkundan að gefa stjórn ákveðins fyrirtækis heimild til að kaupa hlut í öðru fyrirtæki. Þetta er náttúrlega mjög skrýtið en er víst nauðsynlegt þar sem þessi geiri er allur saman rekinn með lögum frá Alþingi.

Herra forseti. Ég stend að þessu frv. í trausti þess að fylgt verði þeirri áætlun ríkisstjórnarinnar að auka samkeppni í orkumálum, breyta eignarformi og helst eignarhaldi í orkugeiranum. Ég treysti því að tekin verði upp hlutafélagavæðing á þessum fyrirtækjum. Landsvirkjun jafnvel skipt upp. Helst vildi ég einkavæða allt heila batteríið, því þetta er stærsti geirinn í íslensku atvinnulífi sem enn er fastur í höndum opinberra aðila.