Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:52:47 (4449)

1999-03-08 13:52:47# 123. lþ. 80.33 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hv. þm. að hér er verulega gott mál á ferðinni. Ég skynjaði það á orðum hv. þm. að hann telji í öllum meginatriðum að um gott mál sé að ræða. Það eina sem hv. þm. hefur áhyggjur af er að um sértækar aðgerðir er að ræða. Það er að vísu rétt. Það er um sértækar aðgerðir að ræða. En þær eru þó almennar að því leyti til að þetta gildir um eina atvinnugrein. Innlendir og erlendir aðilar standa jafnfætis hvað þetta snertir og það verður hv. þm. að hafa í huga. Hér er um algerlega tímabundnar aðgerðir að ræða í þeim tilgangi að kanna hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að byggja upp kvikmyndaiðnað á Íslandi og hvort hann geti staðið á eigin fótum án nokkurrar aðstoðar eða sértækra aðgerða þegar því tímabili lýkur. Ef ekki, þá halda menn auðvitað ekki áfram. Ef þetta gengur, þá erum við búin að byggja upp mikilvæga atvinnugrein.

Hv. þm. tekur hugbúnaðariðnaðinn sem samlíkingu og það er réttmætt. Hins vegar hafa menn verið að gera ýmislegt með sértækum aðgerðum, ekki jafnstórtækt og hér er lagt til, gagnvart hugbúnaðinum með styrkjum frá Nýsköpunarsjóði, með styrkjum frá Átaki til atvinnusköpunar, með aðgerðum sem menn hafa verið að grípa til til að aðstoða þá grein. Þar gætu menn gert meira sem snýr m.a. að skattamálum, rannsóknum og þróunarstarfsemi og þar fram eftir götunum. Það á að skoða hvert mál út af fyrir sig.